15. febrúar 2023

Hagnaður eftir skatta 17,5 milljarðar króna á árinu 2022

SKEL birti uppgjör 4F 2022 og ársuppgjör 2022 í dag

Helstu niðurstöður:
• Hagnaður eftir skatta nam 17,5ma.kr. á árinu 2022
• Arðsemi eigin fjár, á ársgrundvelli, var 110,6%
• Heildareignir í lok tímabilsins námu 38,5ma.kr.
• Eigið fé í árslok 2022 nam 33,4ma.kr. og var eiginfjárhlutfall 86,2%
• Handbært fé í árslok nam 4,7ma.kr. og eign í ríkisskuldabréfum 2,1ma.kr.

Árið 2022 var viðburðaríkt. SKEL hafði það að markmiði að ljúka þeirri vegferð sem hófst á haustmánuðum 2021, þegar tekin var ákvörðun um að skipta upp gamla Skeljungi hf. Um var að ræða viðamikið verkefni sem hefur krafist mikils af starfsmönnum og stjórn. Ég tel það sýna styrk starfsmanna Orkunnar, Skeljungs og Gallon að hafa tekið því fagnandi að brjóta upp 96 ára gamalt rekstrarfélag og umbreyta því í fjögur fyrirtæki sem öll eru í vaxtarfasa. Við stefnumörkun Orkunnar, Skeljungs og Gallon var áherslan sú að þar færu fyrirtæki sem myndu hafa áhrif á sínum mörkuðum til hins betra, störfuðu sjálfstætt og myndu innleiða góða stjórnarhætti. Þessi vinna hefur gengið með ágætum og raungerist í góðri afkomu félaganna þrátt fyrir krefjandi rekstrarumhverfi. Félögin þrjú starfa nú sjálfstætt. Þau hafa á að skipa öflugu stjórnendateymi og starfsmönnum með yfirgripsmikla þekkingu á þeim mörkuðum sem félögin starfa á. Við stefnum að því að samstæður Orkunnar og Skeljungs verði skráningarhæfar einingar innan þriggja ára. Það hefur gengið vel í þessu efnum. Orkan keypti hlut í raforkusölufyrirtækinu Straumlind. Fjöldi viðskiptavina Straumlindar hefur meira en sexfaldast árið 2022. Samstarf félaganna mun flýta verulega fyrir auknu vöruframboði samstæðunnar á raforku til heimila og fyrirtækja. Þá tilkynntum við nýlega um fjárfestingu QairIceland, sem er í eigu Qair, í Íslenska Vetnisfélaginu ehf. Qair er alþjóðlegt fyrirtæki í grænni orku. Við væntum mikils af samstarfinu, en til skoðunar er möguleiki Íslenska Vetnisfélagsins á að eiga alla virðiskeðjuna, frá framleiðslu til dreifingar á grænu vetni. Gengið var frá kaupum Skeljungs ehf. á Kletti – sölu og þjónustu 10. febrúar 2023. Líkt og Skeljungur er Klettur rótgróið fyrirtæki sem byggt er upp utan um alþjóðleg vörumerki. Um er að ræða stefnumarkandi viðskipti sem eru liður í að byggja upp öflugt alhliða þjónustufyrirtæki við íslenskt atvinnulíf. Í dag undirritaði SKEL kaupsamning um sölu á öllum hlutum sínum í Orkufélaginu, eða 48,3% af heildarhlutafé félagsins. Kaupverð hlutafjár er DKK 146.054.899. Orkufélagið er móðurfélag P/F Magn sem er orku-, verslunar og olíudreifingarfyrirtæki í Færeyjum. Salan er liður í yfirlýstri stefnu SKEL að draga úr vægi jarðefnaeldsneytissölu í eignasafninu. Árið 2019 var vægi jarðefnaeldsneytis í eignasafni 96% en nú er það 49%. Með sölu á Orkufélaginu mun draga meira úr vægi jarðefnaeldsneytis fyrir efnahag félagsins SKEL. Kaldalón setti fram stefnu um markmiðadrifinn vöxt fram að skráningu á aðalmarkað á liðnu ári. Í framhaldi af því var hlutafé aukið um 4 milljarða að markaðsvirði. SKEL fagnar aðkomu breiðs hóps fjárfesta að félaginu. Vöxtur félagsins var mikill á árinu 2022. SKEL mun áfram styðja við félagið á þeirri vegferð sem mörkuð hefur verið. VÍS tilkynnti um nýjan kafla í sögu félagsins þar sem stefnumörkun stjórnar er að gera VÍS að enn vænlegri fjárfestingakosti með sýn á vöxt, þróun og fjármagnsskipan. Liður í þeirri umbreytingu er að gera félagið söludrifnara og vera virkur þátttakandi í þróun fjármálastarfsemi á Íslandi. Félagið tók síðan stórt skref í þessa átt með tilkynningu um samrunaviðræður við Fossa fjárfestingabanka. SKEL fagnar og styður stefnumótun stjórnar og er fylgjandi samruna við Fossa. Mikil gerjun er á fjármálamarkaði, sú gerjun opnar á frekari tækifæri til að láta sýn VÍS raungerast.
Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, Forstjóri SKEL

Opinn kynningarfundur vegna árshlutauppgjörs félagsins verður haldinn 16. febrúar, á Héðni Kitchen & Bar, Seljavegi 2, 101 Reykjavík. Fundurinn hefst kl. 16:30 en boðið verður upp á léttar veitingar frá kl. 16:15. Á fundinum munu Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri og Magnús Ingi Einarsson, fjármálastjóri kynna afkomuna og helstu þætti úr rekstrinum.

Fréttir