31. október 2024

Tilkynning eftir þriðja ársfjórðung 2024

Afkoma rekstrarfélaga og skráðra hlutabréfa á 3F 2024

Afkoma óskráðra rekstrarfélaga í meirihlutaeigu SKEL er heilt yfir í takt við það sem var greint frá í hálfsársuppgjöri félagsins. SKEL flokkar rekstrarfélögin í eignasafninu annars vegar sem félög á neytendamarkaði og hins vegar sem innviði og félög á fyrirtækjamarkaði. Hér að neðan verður gert grein fyrir afkomu helstu eigna og samanburði við birtar áætlanir félaganna fyrir fyrstu 9 mánuði ársins 2024, samkvæmt stjórnendauppgjörum.

Fyrirtækjamarkaður og innviðir

Styrkás, þ.e. Skeljungur, Klettur og Stólpi – Eignarhlutur 63,4%

Gallon – Eignarhlutur 100%

  • Framlegð 9M var 7.609 m.kr. (áætlun 7.502 m.kr.)
  • EBITDA 9M var 2.581 m.kr. (áætlun 2.313 m.kr.)
  • EBIT 9M var 2.118 m.kr. (áætlun. 2.006 m.kr)

Rekstur Styrkáss gengur vel og var umfram áætlun á fjórðungnum. Innan samstæðu félagsins í dag eru Skeljungur, Klettur og Stólpi. Rekstur Gallon ehf. er á áætlun. Seld var fasteign að Fálkavöllum að andvirði 143 m.kr. sem hefur 105 m.kr áhrif á EBITDA félagsins á tímabilinu.

Eins og þekkt er, þá eru hreyfingar á markaði með orkuinnviði hérlendis. SKEL og sérhæfður fjárfestir eiga í viðræðum um viðskipti með 100% hlutafjár í Gallon. Nánar verður upplýst um framgang þessa máls eftir því sem tilefni er til.

Neytendamarkaður

Orkan, þ.e. Orkan og Löður – Eignarhlutur 100%

Heimkaup, þ.e. Lyfjaval ehf., Prís, 10-11, Extra o.fl. – Eignarhlutur 81%

  • Framlegð 9M var 5.895 m.kr. (áætlun 6.011 m.kr.)
  • EBITDA 9M var 2.245 m.kr. (áætlun 2.352 m.kr.)
  • EBIT 9M var 1.055 m.kr. (áætlun 1.295 m.kr.)

Rekstur Orkunnar gengur vel og var umfram áætlun á fyrstu 9 mánuðum ársins. Stjórnendur Orkunnar hafa einsett sér að vera fremst í sjálfsafgreiðslu á Íslandi og virkur þátttakandi í orkuskiptum. Sala á raforku er í samræmi við áætlanir félagsins.

Heimkaup opnaði lágvöruverðsverslunina Prís og hafa viðtökur viðskiptavina verið framar vonum. Áskoranir hafa annars verið í rekstri annarra verslana sem hefur verið undir væntingum en gripið hefur verið til hagræðingaraðgerða sem munu skila árangri á næstu mánuðum.

Samrunaviðræðum Samkaupa og ofangreindra fyrirtækja var slitið í gær, þann 30. október, eins og tilkynnt var um í kauphöll.

SKEL hefur birt áætlanir og upplýsingar án áhrifa IFRS16 á EBITDA. Áhrifin af því eru að leigusamningar eru gjaldfærðir meðal rekstrarkostnaðar í rekstrarreikningi sem lækkar EBITDA, í stað þess að nýtingarrétturinn sé gjaldfærður með afskriftum og vextir gjaldfærðir meðal fjármagnsliða eins og IFRS16 staðallinn gerir ráð fyrir. Í tilviki fyrirtækja á neytendamarkaði þá er EBITDA leiðrétt fyrir IFRS16 á fyrstu 9 mánuðum ársins 1.630 m.kr. en áætlun var 1.776 m.kr. og afkoman því 8% undir áætlun. Í tilviki fyrirtækjamarkaðar og innviða var EBITDA leiðrétt fyrir IFRS16 2.491 m.kr. á móti áætlun upp á 2.234 m.kr. og afkoman því 12% yfir áætlun.

Afkoma skráðra hlutabréfa og lausafjárstaða

Hagnaður af skráðum hlutabréfum í eigu félagsins nam 1.069 m.kr. á 3. fjórðungi ársins. Helstu skráðar hlutabréfastöður í lok fjórðungsins eru 2.747 m.kr. í Skaga og 3.644 m.kr. í Kaldalóni. Aðrar skráðar hlutabréfaeignir námu 1.674 m.kr. í lok fjórðungsins. Lánsfjármögnun stóð í 4.236 m.kr. í lok fjórðungs og reiðufé og ríkisskuldabréf voru 3.964 m.kr.

Stork - erlendar fjárfestingar

Unnið hefur verið markvisst síðustu 18 mánuði að kortlagningu tækifæra á smásölumarkaði (e. retail) í Evrópu en SKEL hefur lýst því yfir að til framtíðar sé ætlunin að auka hlutfall erlendra eigna í eignasafni félagsins. Aðstæður á smásölumarkaði eru mjög áhugaverðar eftir miklar áskoranir á þeim markaði á síðustu árum.

Fjallað var um fjárfestingu SKEL í INNO í uppgjörskynningu fyrir fyrri árshelming. Fyrstu mánuðirnir frá kaupum hafa gengið vel og hefur ýmsum aðgerðum sem áætlað er að muni auka arðsemi félagsins verið hrint í framkvæmd. Fjárhagsár félagsins er frá 1. október til 30. september og fyrir tímabilið 2023/2024 er gert ráð fyrir að EBITDA verði um 9,5 milljónir evra. Áætlanir fyrir rekstrarárið 2024/2025 gera ráð fyrir umtalsvert betri afkomu á næsta rekstrarári. Óbeinn eignarhlutur SKEL í INNO er 50% hlutafjár.

Fjárfesting SKEL í INNO var gerð í gegnum félagið Stork ehf. sem er 100% í eigu SKEL. Hlutverk Stork verður að halda utan um erlendar eignir SKEL með skýrt skilgreindum markmiðum og stjórn. SKEL áætlar að opna fyrir fjárfestingu annarra í Stork ehf. til að efla félagið, ná fram eignadreifingu og nýta þau tækifæri sem við teljum að séu til staðar. SKEL hefur gengið vel að vinna með öðrum fjárfestum að ákveðnum markmiðum, líkt og umbreytingar á Styrkás, Kaldalóni og Skaga sýna glögglega. Efling Storks með aðkomu annarra öflugra hluthafa er því liður í sömu aðferðarfræði um stefnumarkandi skref inn á erlenda markaði.

Fasteignir

Kaup á síðari hluta íbúða við Stefnisvog, sem eru 50 talsins, munu ganga í gegn á fjórða ársfjórðungi. Fasteign að Litlatúni var seld í október. Söluverð var 460 m.kr. og hefur verið að fullu greitt. Fasteignin var bókfærð á 370 m.kr.

Athugun ESA

Eftirlitsstofnun EFTA („ESA“) gerði í október athugun hjá SKEL vegna starfsemi Lyfjavals ehf. sem er í eigu Heimkaupa ehf., sem aftur er í 81% eigu SKEL og tengdra félaga, eins og tilkynnt var um í kauphöll 14. október sl.

Sú háttsemi sem ákvörðun ESA nr. 91392 tekur til eru samkeppnishamlandi samningar milli Lyfjavals og samkeppnisaðila félagsins. Nánar tiltekið hafi samkeppnisaðilar útilokað beina samkeppni sem var fyrir hendi milli hefðbundinna apóteka þeirra, en ESA byggir á því að apótekum hérlendis megi skipta í hefðbundin apótek og bílaapótek. Framangreind markaðsskipting gæti meðal annars hafa átt sér stað með (bein tilvitnun):

a) „eignaskiptasamningi, dags 26. apríl 2022, milli Lyfja og heilsu og Lyfjavals varðandi tiltekin hefðbundin apótek aðilanna sem starfrækt voru og síðar lokað í Mjóddinni og Glæsibæ;

b) samhæfingu um framkvæmd á nýrri stefnu Lyfjavals/SKEL um bílapótek; og

c) takmörkun á getu Lyfja og heilsu til að opna bílaapótek og takmörkun á getu Lyfjavals til að opna hefðbundin apótek.“

Að því er varðar lið (a) þá taldi SKEL málinu lokið með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 1/2023 sem birtur var þann 9. ágúst 2023 ásamt tilkynningu á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins. Varðandi lið (b) þá hefur SKEL opinberlega og á afkomufundum félagsins gert grein fyrir þeirri hugmyndafræði sem rekstur Lyfjavals hefur verið byggður upp á. Vísast þar sérstaklega til þeirra krafna sem eru gerðar í reglugerð nr. 1340/2022 um lyfsöluleyfi og lyfjabúðir, sem tók gildi 15. nóvember 2022. Varðandi lið (c) þá hefur SKEL ekki beitt nokkrum áhrifum á önnur fyrirtæki til að takmarka getu þriðju aðila til að opna bílaapótek eða takmarkað getu Lyfjavals á að opna önnur apótek. Hið rétta er að frá því að viðskipti sem úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 1/2023 fjallar um hefur félagið opnað þrjú apótek, þ.m.t. eitt í Suðurfelli sem er í 1,2 km. fjarlægð frá Mjódd.

Líkt og áður hefur komið fram hefur SKEL áætlað markaðshlutdeild Lyfjavals á lyfjamarkaði í kringum 10%. Eigin innflutningur Lyfjavals hefur verið hverfandi og snert aðallega á eftirfarandi vöruflokkum, (i) covid próf, (ii) strimlar fyrir sykursjúka og (iii) rafhlöður fyrir heyrnartæki. Lyfjaval hefur ekki sinnt útflutningi.

SKEL og Lyfjaval aðstoðaði starfsfólk ESA við athugun málsins og afhenti öll umbeðin gögn. Þá hefur SKEL átt upplýsingafundi með helstu lánveitendum félagsins eða dótturfélaga til að skýra frá athugun ESA. SKEL hefur enga ástæðu til að ætla að brotið hafi verið gegn samkeppnislögum í starfsemi Lyfjavals. Framvinda málsins er nú alfarið í höndum ESA. SKEL mun greina frá framvindu málsins eins og hún blasir við félaginu hverju sinni.

Fjárhagsdagatal SKEL fjárfestingafélags hf. fyrir árið 2024:

Uppgjör seinni hluta árs 2024 og ársuppgjör 2024: 6. febrúar 2025

Aðalfundur 2025: 6. mars 2025

Nánari upplýsingar veitir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, fjarfestar@skel.is // 444-3040

Fyrirvari:

Í framangreindri fréttatilkynningu er vísað til áætlana og framtíðarhorfur sem er háðar óvissuþáttum og getur þýtt að raunverulegur árangur verði frábrugðinn því sem áætlað er í þessari fréttatilkynningu. SKEL hefur ekki skyldu til að, og mun ekki, uppfæra þessar spár um framtíðarhorfur félagsins til að endurspegla atburði og aðstæður sem eiga sér stað eftir útgáfu þessarar fréttatilkynningar. Það er ábyrgð fjárfestis að reiða sig ekki seinna meir á spár um framtíðarhorfur sem eru settar fram í þessari fréttatilkynningu þar sem þær eiga eingöngu við á þeim tíma sem hún er gefin út. Upplýsingastefna SKEL er aðgengileg á vefsíðu félagsins www.skel.is undir „stefnur og reglur“.

Fréttir