SKEL kaupir belgísku verslunarkeðjuna INNO ásamt eiganda sænska verslunarfélagsins Åhléns
Félag í jafnri eigu SKEL fjárfestingafélags hf. og Axcent Scandinavia AB sem á og rekur sænska verslunarfélagið Åhléns hefur fest kaup á belgíska verslunarfélaginu INNO sem er stærsta verslunarkeðjan í Belgiu með 16 stórverslanir í eftirsóttum þjónustukjörnum í öllum helstu borgum landsins. INNO býður vinsæl vörumerki í tískufatnaði, snyrtivörum, leikföngum, húsbúnaði, heimilisvörum, húsgögnum og fleiri vöruflokkum. Fyrirtækið rekur einnig netverslun og heildverslun og eru starfsmenn samtals 1360. Velta félagsins á starfsárinu 2023 / 2024 var 313,7 milljónir evra og nam EBITDA hagnaðurhlutfallið 3%. INNO er eina verslunarkeðja sinnar tegundar í Belgíu og rekur hún sögu sína aftur til ársins 1897. Fjárfesting SKEL í verkefninu nemur um 3% af heildareignum SKEL.
Åhléns er sænsk verslunarkeðja sem rekur yfir 48 verslanir og vöruhús um alla Svíþjóð, þar á meðal 18 verslanir í Stokkhólmi. Verslunin býður fjölda vörumerkja í ólíkum vöruflokkum en þekktust er hún fyrir fatnað, húsbúnað og snyrtivörur. Åhléns er ein þekktasta verslun Svíþjóðar og hefur hún verið starfrækt frá árinu 1899. Sænski athafnamaðurinn Ayad Al-Saffar, stofnandi Axcent of Scandinavia, keypti Åhléns árið 2022 ásamt fjárfestingafélaginu Härstedt & Jansson Invest AB og hefur hann leitt stefnumótun og vöxt félagsins síðan þá.
Ráðgjafi við kaupin var Arion banki.
Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri SKEL.:
„INNO er öflug verslunarkeðja og sú eina sinnar tegundar í Belgíu. Inno býr að langri sögu og traustum grunni viðskiptavina og stjórnendur félagsins hafa lagt fram metnaðarfull áform um vöxt sem SKEL mun styðja við. SKEL býr að þekkingu og reynslu á sviði verslunar og smásölu og er stór hluti eignasafns félagsins í þeim rekstri. Þá er ánægjulegt að kaupin á INNO marka upphaf að samstarfi við eigendur Åhléns sem búa að mikilli reynslu og hafa náð eftirtektarverðum árangri með sambærilegar verslanir í Svíþjóð. Þeir hafa einnig sýnt mikinn metnað til takast á við tækifæri í verslun sem ný tækni og samfélagsbreytingar bjóða upp á. Fjárfestingin er liður í því að auka vægi erlendra eigna í eignasafni SKEL en stefnt er að því að þær nemi allt að 30% af safninu.“
Frekari upplýsingar:
Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri SKEL hf. – fjarfestar@skel.is // s.444 3040