Tilkynning eftir fyrsta ársfjórðung 2025

Afkoma rekstrarfélaga og skráðra hlutabréfa á 1F 2025
Afkoma óskráðra rekstrarfélaga í meirihlutaeigu SKEL er í takt við væntingar og tilkynntar áætlanir. SKEL flokkar rekstrarfélögin í eignasafninu annars vegar sem félög á neytendamarkaði og hins vegar sem innviði og félög á fyrirtækjamarkaði. Hér að neðan verður gert grein fyrir afkomu helstu eigna og samanburði við birtar áætlanir félaganna fyrir fyrstu 3 mánuði ársins 2025, samkvæmt stjórnendauppgjörum.
Helstu fréttir af eignasafni SKEL 1F 2025
Neytendamarkaður
Orkan, þ.e. Orkan, Löður og Lyfjaval (81,25%) – Eignarhlutur 100%
- Framlegð 3M var 1.473 m.kr. (áætlun 1.625 m.kr.)
- EBITDA 3M var 691 m.kr. (áætlun 765 m.kr.)
- EBIT 3M var 364 m.kr. (áætlun 426 m.kr.)
Rekstur Orkunnar og Löðurs gengur vel en var undir áætlun á fyrstu 3 mánuðum ársins. Útlit er fyrir að á fyrstu fjórum mánuðum ársins verði afkoman á áætlun. Mars mánuður var besti mánuður Löðurs frá upphafi og jukust tekjur af þvotti um 21,9% frá fyrra ári. Hlutur SKEL í Lyfjavali (81,25%) var í upphafi árs seldur til Orkunnar. Rekstur Lyfjavals gengur samkvæmt áætlun. Sala hefur aukist um 19% frá sama tímabili í fyrra og framlegðarhlutfallið er 30%.
Í kjölfar hlutafjáraukningar hjá Samkaupum, þann 20. febrúar, undirrituðu Samkaup og Heimkaup (nú Atlaga ehf.) samrunasamning sem byggði á samkomulagi um helstu skilmála sem félögin undirrituðu í lok árs 2024. Í samrunasamningi var gert ráð fyrir því að Samkaup yrði yfirtökufélagið og sameinaðist þar öllum einingum Heimkaupa á dagvörumarkaði og greiðir fyrir þau með útgefnu hlutafé í Samkaupum. Verslanir undir merkjum 10-11, Prís og Extra auk þriggja þægindaverslana á þjónustustöðvum Orkunnar áttu að falla undir rekstur sameinaðs félags. Tilkynnt verður um framgang málsins eftir því sem tilefni er til.
INNO – Eignarhlutur 50%
- Tekjur 6M 2024/25 var 155,7 m.EUR ( 2023/24 var 153,6 m.EUR)
- EBITDA 6M 2024/25 var 7,3 m.EUR (2023/24 var 5,7 m.EUR)
- EBIT 6M 2024/25 var 3,8 m.EUR (2023/24 var 1,9 m.EUR)
Rekstur INNO er í samræmi við áætlanir stjórnenda félagsins. Rekstrarár félagsins er frá október til september og á fyrstu 6 mánuðum rekstrarársins hefur EBITDA félagsins aukist um 29% samanborið við fyrra ár og nemur 7,3 milljónum evra. Tekjur jukust um 2,1 milljón evra (+1,4%) og rekstrarhagnaður jókst um 1,9 milljón evra (+97,2%) frá sama tímabili á fyrra ári.
Fyrirtækjamarkaður og innviðir
Styrkás, þ.e. Skeljungur, Klettur og Stólpi – Eignarhlutur 63,4%
- Framlegð 3M var 2.208 m.kr. (áætlun var 2.313 m.kr.)
- EBITDA 3M var 446 m.kr. (áætlun var 482 m.kr.)
- EBIT 3M var 343 m.kr. (áætlun var 372 m.kr.)
Rekstrarhagnaður (EBIT) Styrkás nam 343 m.kr. á fyrstu þremur mánuðum ársins sem er 13% aukning frá fyrra ári. Árstíðarsveifla er í rekstri Styrkás og er fyrsti ársfjórðungur jafnan sá lakasti. Þjónustutekjur samstæðunnar jukust um 19% á milli ára og leigutekjur um 11%. Áætlun ársins gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður samstæðunnar verði 2,4 ma.kr. árið 2025.
Stjórnendur Styrkáss telja góðar horfur fyrir háannatímabilið í orku- og efnavöru. Þjónustutekjur hafa farið vaxandi í orku- og efnavöru en Skeljungur tók yfir eldsneytisafgreiðslu á Reykjavíkurflugvelli um áramótin.
Rúmlega 20% tekjuvöxtur var í tækjum og búnaði á milli ára hjá Kletti og búist er við áframhaldandi sterkum vexti þjónustutekna í kjölfar mikillar sölu. Pantanabækur eru umfram áætlun fyrir árið bæði hjá Scania og CAT. Hjá Stólpa var tekjuvöxtur í eignaumsýslu og leigustarfsemi 11% á milli ára og rekstrarhagnaður (EBIT) á áætlun. Verkefnapípa í húseiningum hjá Stólpa er sterk.
Gallon – Eignarhlutur 100%
- Tekjur 3M var 120 m.kr. (áætlun 128 m.kr.)
- EBITDA 3M var 49 m.kr. (áætlun 55 m.kr.)
- EBIT 3M var 6 m.kr. (áætlun 18 m.kr)
Rekstur Gallon var undir áætlun sem skýrist fyrst og fremst af engri loðnuvertíð og að olía til rafmagnsframleiðslu var minni en undanfarin ár. Eins og áður hefur verið gert grein fyrir eru töluverðar hreyfingar á markaði með orkuinnviði hérlendis. SKEL og sérhæfður erlendur fjárfestir eiga í viðræðum um viðskipti með 100% hlutafjár í Gallon, áreiðanleikakönnun er yfirstandandi. Verði af þeim viðskiptum þá er gert ráð fyrir að 25% eignarhlutur Gallon í eldsneytisbirgðastöðinni á Keflavíkurflugvelli, EBK ehf., verði ekki hluti af sölunni. Nánar verður upplýst um framgang þessa máls eftir því sem tilefni er til.
Afkoma skráðra hlutabréfa
Tap af skráðum hlutabréfum í eigu félagsins nam 570 m.kr. á 1. fjórðungi ársins. Helstu skráðar hlutabréfastöður í lok fjórðungsins eru 3.123 m.kr. í Skaga og 4.226 m.kr. í Kaldalóni. Aðrar skráðar hlutabréfaeignir námu 2.228 m.kr. í lok fjórðungsins. Meðal þeirra er hlutur SKEL í Sýn hf., en þann 11. mars keypti SKEL 25.000.000 hluti í Sýn hf., eða því sem nemur 10,05% af hlutafé félagsins, á genginu 22,52 kr. á hlut. Sýn birti flöggun vegna viðskiptanna 12. mars.
Fasteignir
Í fjárfestakynningu með ársuppgjöri 2024 var tilkynnt að á árinu stæði til að hefja sölu á íbúðum SKEL við Stefnisvogi eftir því sem leigusamningar renna út. SKEL var í upphafi árs eigandi að 105 íbúðum að markaðsvirði 10,3 ma.kr. Skuldir á móti fasteignum í Stefnisvogi nema 7,1 ma.kr.
Um miðjan apríl voru 13 íbúðir í Stefnisvogi seldar til óhagnaðardrifins íbúðafélags og var söluverðið 1.112 m.kr. Áform um sölu íbúðanna eru óbreytt og hefur hluti fasteigna þegar verið settur á sölu.
Vísisfjárfestingar
Fjárfestar og núverandi hluthafar Baridi Iceland hf. skuldbundu sig í apríl til að taka þátt í hlutafjáraukningu í félaginu upp á samtals 7,0 m USD. Fjárfestahópurinn samanstendur m.a. af íslenskum og erlendum einkafjárfestum, en hluthafar í félaginu tóku 3,0 m USD. Hlutur SKEL í félaginu að loknu útboði mun vera 31,8%. Heildarvirði hlutafjár Baridi hf. í viðskiptunum er 53 m USD og virði hlutar SKEL í félaginu að teknu tilliti til viðskiptaverðs 16,8 m USD.
Stjórnendur félagsins munu nýta hlutafjáraukninguna til að fjármagna framkvæmdir vegna fyrirhugaðrar koparvinnslu við námuleyfi félagsins í nágrenni við höfuðborg Tansaníu, Dodoma. Samkvæmt áætlunum stjórnenda er stefnt að því að hefja koparvinnslu um mitt næsta ár.
Greiðslur til hluthafa
Á aðalfundi SKEL þann 6. mars 2025 var samþykkt tillaga stjórnar um að greiða arð til hluthafa á árinu 2025 vegna rekstrar ársins 2024 að fjárhæð 6.000 m.kr., sem skyldi koma til greiðslu í tveimur greiðslum. Fyrri arðgreiðslan, að fjárhæð 3.000 m.kr. eða því sem samsvarar 1,60 kr. á hlut, var greidd til hluthafa þann 20. mars 2025.
Seinni arðgreiðslan að fjárhæð 3.000 m.kr. sem sömuleiðis nemur 1,60 kr. á hlut, verður greidd út til hluthafa þann 20. október 2025 (útborgunardagur). Réttur hluthafa til arðgreiðslu sem greidd verður út þann 20. október 2025 mun miða við hlutaskrá félagsins í lok viðskipta þann 14. október 2025 (arðsréttindadagur). Arðleysisdagur, þ.e. sá dagur sem viðskipti hefjast með bréf félagsins án réttar til síðari hluta arðgreiðslu verður 13. október 2025.
Fjöldi hluthafa voru 881 í byrjun árs og voru 960 í lok fyrsta ársfjórðungs.
Fjárhagsdagatal SKEL fjárfestingafélags hf. fyrir árið 2025:
Uppgjör fyrri hluta árs 2025: 14. ágúst 2025
Uppgjör seinni hluta árs 2025 og ársuppgjör 2025: 5. febrúar 2026
Aðalfundur 2026: 5. mars 2026
Nánari upplýsingar veitir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, fjarfestar@skel.is
Fyrirvari:
Í framangreindri fréttatilkynningu er vísað til áætlana og framtíðarhorfur sem er háðar óvissuþáttum og getur þýtt að raunverulegur árangur verði frábrugðinn því sem áætlað er í þessari fréttatilkynningu. SKEL hefur ekki skyldu til að, og mun ekki, uppfæra þessar spár um framtíðarhorfur félagsins til að endurspegla atburði og aðstæður sem eiga sér stað eftir útgáfu þessarar fréttatilkynningar. Það er ábyrgð fjárfestis að reiða sig ekki seinna meir á spár um framtíðarhorfur sem eru settar fram í þessari fréttatilkynningu þar sem þær eiga eingöngu við á þeim tíma sem hún er gefin út. Upplýsingastefna SKEL er aðgengileg á vefsíðu félagsins www.skel.is undir „stefnur og reglur“.