15. ágúst 2024

Árshlutauppgjör 1H 2024

  • Tap eftir skatta nam 314 millj.kr.
  • Eignir félagsins námu 49.136 millj.kr.
  • Eigið fé nam 36.602 millj.kr. sem samsvarar 19,5 á hvern útgefinn hlut
  • Afkoma af skráðum eignum var neikvæð um 426 m.kr.
  • Afkoma af óskráðum eignum var jákvæð um 510 m.kr.

Helstu fréttir af eignasafni SKEL 1H 2024

Skráð verðbréf

Afkoma af skráðum verðbréfum var neikvæð um 426 m.kr. Heildareign í skráðum verðbréfum nam 9.396 m.kr. í upphafi árs og 8.844 m.kr. þann 30. júní sl. Verðmætustu skráðu eignir SKEL í lok tímabils voru 15,3% eignarhlutur í Kaldalóni sem hefur markaðsvirðið 2.840 m.kr. og 8,2% hlutur í Skaga sem var að markaðsvirði 2.334 m.kr. í lok tímabils. Önnur skráð hlutabréf í eignasafni SKEL voru að markaðsvirði 3.666 m.kr. í lok tímabils. Skráðar eignir voru því 18% eigna SKEL, en til lengri tíma er stefnt að því að 50% eigna félagsins séu á skráðum markaði.

Neytendamarkaður

Orkan // Löður eru að fullu í eigu SKEL. Fjöldi afgreiðslna jókst um 3% á fyrri hluta ársins samanborið við sama tímabil og í fyrra. Þá jókst fjöldi seldra lítra um 1%. Löður kynnti til sögunnar nýtt áskriftarmódel sem hefur mælst vel fyrir. Nýjar þvottastöðvar voru opnaðar í Vestmannaeyjum og á Einhellu í Hafnarfirði. Tafir urðu á opnun á Vesturlandsvegi sem hefur nú opnað. Á árinu munu einnig stöðvar opna á Akureyri og í Fellsmúla í Reykjavík. Á sama tímabili var átta þvottastöðvum Löðurs lokað á þjónustustöðvum N1. Samanlögð EBITDA Orkunnar og Löðurs er 954 m.kr. fyrir tímabilið en var áætluð 923 m.kr. Samstæðan er færð upp í árshlutauppgjöri sem nemur 479 m.kr., sem er aðallega vegna góðrar rekstrarafkomu og framtíðarfjárflæðis sem færist nær í tíma.

Heimkaup // Lyfjaval eru að 81% hluta í eigu SKEL. Rekstur Heimkaupa hefur falið í sér áskoranir og litast að hluta af opnun nýrrar lágvöruverðsverslunar, Prís. Afkoma Heimkaup á fyrri árshelmingi er neikvæð um 241 m.kr., en áætlanir gerðu ráð fyrir neikvæðri afkomu upp á 145 m.kr. Rekstur Lyfjavals er á ágætri siglingu og hefur fjöldi afgreiðsla aukist um 13% á milli ára og opnaði félagið nýverið apótek á Miklubraut í Reykjavík og fyrirhugað er að opna á Selfossi síðar á árinu. Samstæða Heimkaupa er færð niður um sem nemur 794 m.kr. á tímabilinu. Þann 16. ágúst opnar Prís, sem er lágvöruverðsverslun í rekstri Heimkaupa. Að því tilefni verður fjárfestakynning SKEL haldin þar, í nýrri verslun Prís, á morgun, þann 16. ágúst.

Í byrjun júlí keypti SKEL 50% í INNO sem er verslunarkeðja (e. department store) í Belgíu ásamt Axcent of Scandaniva sem leitt er af Ayad Al-Saffar. Ayad Al-Saffar og meðfjárfestar hans eignuðust verslunarkeðjuna Åhléns árið 2022 og hafa náð eftirtektarverðum árangri í rekstri félagsins. Åhléns rekur 49 verslanir í Svíþjóð og eru starfsmenn um 3.000 talsins. INNO er ein stærsta og þekktasta verslunarkeðja Belgíu með 16 stórverslanir í eftirsóttum þjónustukjörnum í öllum helstu borgum landsins. INNO býður vinsæl vörumerki í tískufatnaði, snyrtivörum, leikföngum, húsbúnaði, heimilisvörum, húsgögnum og fleiri vöruflokkum. Fyrirtækið rekur einnig netverslun og heildverslun og eru starfsmenn samtals 1.360. Fjárfestingin er liður í að auka vægi erlendra eigna í eignasafni SKEL. Til lengri tíma er stefnt að því að erlendar eignir SKEL nemi 30% af eignasafninu. Þetta hlutfall er í lok tímabils 4%, en rétt er að taka fram að INNO fjárfestingin var ekki komin inn þar sem viðskiptin gengu í gegn í byrjun júlí.

Samrunaviðræður við Samkaup

Samrunaviðræður SKEL og Samkaupa vegna samruna Samkaupa og tiltekinna félaga í eigu SKEL, nánar tiltekið Orkunnar IS ehf., Löður ehf., Heimkaupa ehf., Lyfjavals ehf. hafa verið yfirstandandi á þessu ári. Viljayfirlýsing var undirrituð í maí sl. Niðurstöður áreiðanleikakannanna allra félaga liggja nú fyrir og eru samningsaðilar í frekari viðræðum. SKEL mun greina frekar frá framvindu eftir því sem tilefni er til.

Fyrirtæki og innviðir

Styrkás er 63,4% í eigu SKEL. Rekstur Styrkás gengur vel og er útlit fyrir að afkoma félagsins verði um 10% umfram áætlun á árinu. Á tímabilinu fékk Styrkás afhent Stólpa og tengd félög og er afkoma þess að fullu inni í árinu. Þá hefur Styrkás gert samning um kaup á öllu hlutafé í Krafti ehf. Kraftur selur MAN, Palfinger og Bucher-Municipal á Íslandi. Kraftur rekur jafnframt þjónustuverkstæði fyrir MAN-bifreiðar. Kaupsamningurinn er háður fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og birgja. Styrkás er bókfært hjá SKEL á síðasta viðskiptaverði og er verðmæti eignarhluta SKEL 9.684 m.kr.

Gallon er 100% í eigu SKEL. Rekstur félagsins er á áætlun. Við lok þriðja ársfjórðungs 2023 var tilkynnt að SKEL hefði ákveðið að kanna möguleg tækifæri til sölu eða frekari þróunar félagsins. Samningaviðræður standa yfir við aðila um kaup á 80% hlutafjár Gallon, en þær eru á frumstigi. Niðurstaða viðræðna er háð niðurstöðum áreiðanleikakannanna og öðrum hefðbundnum fyrirvörum. Gerð verður nánari grein fyrir framgangi málsins eftir því sem tilefni er til. Virði Gallon er bókfært á 2.903 m.kr. við lok tímabils.

Fasteignir

Íbúðir SKEL við Stefnisvog eru færðar upp um 309 m.kr. sem er hækkun um 6,2% skv. vísitölu íbúðaverðs yfir tímabilið. Á tímabilinu var einnig ákveðið að nýta kauprétt á 35 íbúðum við Stefnisvog sem var skrifað undir haustið 2023. Ásamt því að nýta kauprétt var náð samkomulagi um kaup SKEL á fleiri íbúðum og samanlagt er félagið að kaupa 50 íbúðir við Stefnisvog, samtals 5.534 fm. að stærð. Kaupverð er 4.704 m.kr. sem jafngildir 850 þús./fm. Áætlað er að íbúðirnar verði afhentar á fjórða ársfjórðungi 2024. SKEL mun bjóða umræddar íbúðir til langtímaleigu í gegnum leigumiðlara.

Hluthafar

Fjöldi hluthafa 30. júní 2024 var 1.018 sem er fækkun um 1% frá áramótum. Fjöldi hluta er 1.878.479.032 eftir lækkun hlutafjár á tímabilinu og á félagið enga eigin hluti í lok tímabils. Arður var greiddur 16. apríl sl. að fjárhæð 750 m.kr

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri SKEL:

„Afkoma fyrri árshelmings er tap sem nemur 0,6% af eignum félagsins. Tapið orsakast aðallega af neikvæðri afkomu af skráðum hlutabréfum og varúðarfærslu á verðmæti eignar okkar á smásölumarkaði.

Styrkás og Orkan eru umfram áætlanir á fyrri árshelmingi, sem er mjög jákvætt enda eru þetta verðmætustu eignir SKEL. Heimsóknum viðskiptavina á þjónustustöðvar Orkunnar fjölgar sem og seldum lítrum. Uppbygging og rekstur Styrkás gengur framar vonum. Með Styrkási tel ég að við séum að byggja upp félag sem mun taka virkan þátt í uppbyggingu innviða og orkuöflunar hérlendis.

Hjá smásöluverslunum okkar var erfiðari rekstur en við bjuggumst við á fyrri árshelmingi. Við reiknum með að það sé tímabundið og erum mjög spennt að sjá hvernig neytendur taka opnun nýrrar smásöluverslunar - Prís.

Nýlega voru tekin afgerandi skref í erlendum fjárfestingum með kaupum á 50% hlut í belgísku verslunarkeðjunni INNO í samstarfi við eigendur Åhléns. Til lengri tíma litið er stefna SKEL að hlutfall erlendra eigna af safni sé allt að 30%.

Viðræður okkar við Samkaup eru yfirstandandi. Áreiðanleikakönnunum er lokið og ég vonast til að við getum greint frá niðurstöðu viðræðna á næstu dögum.“

Fjárhagsdagatal

  • Afkomukynning fyrri hluta ársins 2024: 16. ágúst í húsnæði Prís við Smáratorg 3, Kópavogi kl. 8:30
  • Uppgjör seinni hluta ársins 2024 og ársuppgjör 2024: 6. febrúar 2025
  • Aðalfundur 2025: 6. mars 2025

Fréttir