Árshlutauppgjör 1H 2025

Tap eftir skatta nam 559 m.kr.
Eignir félagsins námu 56.663 m.kr.
Eigið fé nam 37.202 m.kr.
Eigið fé og ógreiddur arður á hlut nemur 21,4 kr.
Afkoma af skráðum eignum var neikvæð um 1.664 m.kr.
Afkoma af óskráðum eignum var jákvæð um 1.133 m.kr.
Afkomukynning fyrri hluta ársins 2025: 15. ágúst á Parliament Hótelinu við Þorvaldsstræti 2-6, 101 Reykjavík kl. 8:30. Gengið er inn um innganginn að gamla Nasa
Helstu fréttir af eignasafni SKEL 1H 2025
Skráð verðbréf
Afkoma af skráðum verðbréfum var neikvæð um 1.664 m.kr. Heildareign í skráðum verðbréfum nam 9.583 m.kr. í upphafi árs og 8.448 m.kr. þann 30. júní sl. Verðmætustu skráðu eignir SKEL í lok tímabils voru 15,8% eignarhlutur í Kaldalóni hf. sem var að markaðsvirðið 3.729 m.kr. og 8,2% hlutur í Skaga hf. sem var að markaðsvirði 2.880 m.kr. við lok fyrri árshelmings. Önnur skráð hlutabréf í eignasafni SKEL voru að markaðsvirði 1.838 m.kr. í lok tímabils. Skráðar eignir voru því 15% eigna SKEL, en til lengri tíma er stefnt að því að um 50% eigna félagsins séu á skráðum markaði. Félagið vinnur að skráningu tveggja verðmætustu eigna sinna á hlutabréfamarkað árið 2027.
Neytendamarkaður
Drangar
Í júlí sl. fór fram uppgjör vegna kaupa Orkunnar IS ehf. á hlutafé í Samkaupum hf. Hluthafar Samkaupa fengu afhenta því sem nemur 28,7% hlutafjár í Dröngum hf., gegn afhendingu 98,6% hlut í Samkaupum. Öðrum hluthöfum Samkaupa stendur til boða að selja hluti sína á sömu kjörum í skiptum fyrir hlutafé í Dröngum. Að því loknu munu Drangar beita innlausn og eignast allt hlutafé Samkaupa. Drangar mynda nú samstæðu með Samkaupum, Orkunni og Lyfjavali ehf. Drangar hafa nú hafið rekstur sem móðurfélag samstæðunnar.
Í stjórn Dranga sitja þau Jón Ásgeir Jóhannesson, Magnús Ingi Einarsson, Liv Bergþórsdóttir, Garðar Newman og Margrét Guðnadóttir. Jón Ásgeir er stjórnarformaður félagsins. Forstjóri Dranga er Auður Daníelsdóttir, en hún hefur starfað sem forstjóri Orkunnar frá árinu 2022 og kemur til með að sinna því starfi áfram samhliða starfi sínu fyrir Dranga. Stærstu hluthafar Dranga eru: SKEL 68,3%, Kaupfélag Suðurnesja svf. 15,0%, Birta lífeyrissjóður 5,3%, Festa lífeyrissjóður 2,9%, Kaupfélag Borgfirðinga svf. 2,8%, Norvik hf. með 2,5% og Eignarhaldfélagið Bjarmi ehf. 1,8% en það er í eigu SKEL.
Velta þeirra félaga sem nú mynda Dranga var um 75 milljarðar kr. árið 2024. Í viðskiptunum var lagt til grundvallar að virði hlutafjár (e. equity value) Dranga væri 19,3 milljarðar kr. og heildarvirði án leiguskuldbindinga (e. enterprise value) væri 27,3 milljarðar kr.
Rekstur félaga í eigu Dranga gekk misjafnlega á fyrri helmingi árs. Rekstur Orkunnar og Löðurs gengur vel var EBITDAaL 9,6% umfram áætlun fyrstu sex mánuði ársins án tillits til einskiptisliða vegna samruna. Framlegð og aðrar tekjur á fyrri árshelmingi 2025 námu 2.893 m.kr. Afgreiðslur á þjónustustöðvum aukast um 10% á milli ára og seldir lítrar um 2,3%. Vöxtur Lyfjavals gengur ágætlega og voru framlegð og aðrar tekjur 653 m.kr. á fyrstu sex mánuðum ársins, en það samsvarar tæplega 13% hækkun frá fyrra ári. Nýr framkvæmdastjóri, Rakel Þórhallsdóttir, hóf störf hjá Lyfjavali í sumar.
Rekstur Samkaupa og Atlögu hefur mætt áskorunum og hvorugt félag náð árangri í takt við áætlanir. Tekjur fyrstu sex mánuði ársins námu 23,9 ma.kr., sem er 6,9% aukning frá sama tímabili fyrra árs. Framlegð fyrstu sex mánuði ársins nam 5,8 ma.kr. sem samsvarar 24,7% framlegðarhlutfalli. Frá því Samkeppniseftirlitið heimilaði framkvæmd samruna Samkaupa og Atlögu í júní sl. hefur verið unnið að því að bæta og styrkja rekstur Samkaupa. Töluverð tækifæri eru í lækkun kostnaðar og hafa hagræðingaraðgerðir nú þegar skilað árangri. Fækkun stöðugilda, einföldun skipurits, samræming þjónustusamninga, samnýting á innviðum og tæknilausnum eru allt atriði sem munu styðja við lækkun kostnaðar á næstu mánuðum og fram til loka árs 2026. Gert er ráð fyrir að ofangreindar aðgerðir skili afkomubata upp á 2,5 – 3 ma.kr. á næstu tveimur árum.
Í haust verður hlutafé Dranga aukið. Samstæðan hefur ráðið fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hf. sem umsjónaraðila verkefnisins og fyrirtækjaráðgjöf Fossa fjárfestingarbanka hf. sem söluráðgjafa. Gert er ráð fyrir að fjárfestakynningar hefjist í byrjun september. Íslandsbanki hefur sölutryggt 2 milljarða í hlutafjárútboðinu sem mun ljúka fyrir árslok.
Hluthafar Dranga stefna að skráningu félagsins á skipulegan verðbréfamarkað fyrir árslok 2027.
STORK // INNO
Í byrjun júlí á síðasta ári keypti SKEL 50% í INNO í gegnum félagið Stork ehf. INNO er ein stærsta og þekktasta verslunarkeðja (e. department store) Belgíu með 16 stórverslanir í eftirsóttum þjónustukjörnum í öllum helstu borgum landsins. INNO býður vinsæl vörumerki í tískufatnaði, snyrtivörum, leikföngum, húsbúnaði, heimilisvörum, húsgögnum og fleiri vöruflokkum. Fyrirtækið rekur einnig netverslun og heildverslun og eru starfsmenn samtals 1.360. Áherslubreytingar hafa orðið í rekstri félagsins og eru þær nú þegar farnar að skila árangri. Ný nálgun eigenda hefur leitt til jákvæðra breytinga á fyrirtækjamenningu sem stuðlar að hraðari ákvarðanatöku og markvissari framkvæmd. Aukin áhersla frá kaupum hefur verið lögð á „In-House brands“ sem skila hærri framlegð og breikkar vöruframboð. Áætlanir félagsins fyrir rekstrarárið 2024/2025 gera ráð fyrir að EBITDA aukist um 44% og verði um 14 milljónir evra.
Áður var greint frá því að Stork hefði ráðið Arion banka til að kanna grundvöll hlutafjáraukningar á næstu mánuðum þar sem leitað yrði að nýjum fjárfestum inn í vel skilgreinda vegferð með tiltekin verkefni á borðinu. Mikið framboð er af áhugaverðum fjárfestingatækifærum sem eru í stöðugri skoðun hjá félaginu. Áfram verður lögð áhersla á fjárfestingatækifæri í Evrópu með áherslu á neytendamarkað.
Virði Stork í uppgjöri SKEL að meðtöldum hluthafalánum er 2.393 m.kr. miðað við 30.6.2025 sem samsvarar 140 m.kr. hækkun frá áramótum
Fyrirtæki og innviðir
Styrkás
SKEL kynnti fyrirhugaða sölu hlutafjár í Styrkási hf. fyrir fjárfestum í febrúar síðastliðinn. Í kynningu kom fram að markmið SKEL væri að fá stofnanafjárfesta inn í hluthafahóp Styrkáss í aðdraganda skráningar félagsins og að Styrkás yrði ekki í meirihluta eigu SKEL til lengri tíma, heldur yrði eignarhald félagsins dreifðara í aðdraganda skráningar á markað.
Þann 6. júní sl. seldi SKEL stofnanafjárfestum sem nemur ríflega 15,4% af útgefnu hlutafé félagsins. Kaupverð hlutanna var samtals er 3.150 m.kr. en það samsvarar 20,47 kr. á hlut.
Kaupendur að hlutunum í Styrkási eru Íslandssjóðir, VÍS tryggingar hf., Birta lífeyrissjóður, Íslenski lífeyrissjóðurinn og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. Samhliða kaupunum flutti Horn IV slhf., fagfjárfestasjóður í rekstri Landsbréfa, hluti sína í Styrkás milli sjóða, í SÁ Horn slhf.. Að loknum viðskiptunum eru hluthafar Styrkás 19 talsins. Stærsti hluthafi félagsins er SKEL með 47,9%, SÁ Horn með 39,2%, Máttarstólpi ehf., eignarhaldsfélag Ásgeirs Þorlákssonar með 8,7% og aðrir með 4,2%.
Rekstur Styrkás var 32 m.kr. undir áætlun á fyrstu sex mánuðum ársins en EBIT félagsins á tímabilinu var 1.144 m.kr. Bókfært virði hlutafjár SKEL í Styrkási að viðskiptunum loknum er 9.819 m.kr.
Innviðir
Gallon ehf. er 100% í eigu SKEL. Rekstur félagsins er á áætlun og var hagnaður 51 m.kr. Bókfært virði Gallon var 3.418 m.kr. við lok tímabils.
Vísisfjárfestingar
Baridi Iceland hf. lauk hlutafjáraukningu upp á samtals 7 m USD í júní. Fjárfestahópurinn samanstendur m.a. af íslenskum og erlendum einkafjárfestum, en hluthafar í félaginu tóku 3 m USD. Hlutur SKEL í félaginu að loknu útboði mun vera 31,8%. Heildarvirði hlutafjár Baridi Iceland í viðskiptunum er 53 m USD. Stjórnendur félagsins munu nýta hlutafjáraukninguna til að fjármagna framkvæmdir vegna fyrirhugaðrar koparvinnslu. Samkvæmt áætlunum stjórnenda er stefnt að því að hefja koparvinnslu á næsta ári.
Virði Baridi Iceland í uppgjöri SKEL er 2.181 m.kr. sem samsvarar 1.650 m.kr. hækkun frá áramótum og miðast það við söluverðmæti hlutafjáraukningar.
Fasteignir
Í fjárfestakynningu með ársuppgjöri 2024 var tilkynnt að á árinu stæði til að hefja sölu á íbúðum SKEL við Stefnisvog eftir því sem leigusamningar renna út. SKEL var í upphafi árs eigandi að 105 íbúðum. Við loka tímabils taldi fasteignasafnið 92 fasteignir og bókfært virði þeirra var 9,2 ma.kr. Skuldir á móti fasteignum í Stefnisvogi nema 6,7 ma.kr.
Arðgreiðslur
Á aðalfundi SKEL þann 6. mars 2025 var samþykkt tillaga stjórnar um að greiða arð til hluthafa á árinu 2025 vegna rekstrar ársins 2024 að fjárhæð 6 milljarðar kr., sem skyldi koma til greiðslu í tveimur greiðslum. Fyrri arðgreiðslan, að fjárhæð 3 milljarðar kr. eða því sem samsvarar 1,60 kr. á hlut, var greidd til hluthafa þann 20. mars 2025.
Seinni arðgreiðslan að fjárhæð 3 milljarðar kr. sem sömuleiðis nemur 1,60 kr. á hlut, verður greidd út til hluthafa þann 20. október 2025 (útborgunardagur). Réttur hluthafa til arðgreiðslu sem greidd verður út þann 20. október 2025 mun miða við hlutaskrá félagsins í lok viðskipta þann 14. október 2025 (arðsréttindadagur). Arðleysisdagur, þ.e. sá dagur sem viðskipti hefjast með bréf félagsins án réttar til síðari hluta arðgreiðslu verður 13. október 2025.
Fjöldi hluthafa voru 881 í byrjun árs og voru 984 þann 30. júní 2025.
Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri SKEL:
„Við erum mjög ánægð með að hafa lokið mikilvægum áföngum með tvö stór verkefni í samræmi við markaða stefnu okkar. Það er annars vegar stofnun Dranga sem við teljum að muni skila hluthöfum góðri arðsemi á komandi árum. Það mun taka tíma og orku að snúa taprekstri Samkaupa í arðbæran rekstur, en sú vinna er þegar hafin og vegferðin vel kortlögð. Hins vegar er það sala á stórum hlut í Styrkási til stofnanafjárfesta. Til þess að Styrkás nái markmiðum sínum um að veita þjónustu til fyrirtækja og stofnana á breiðum grunni verða fjárfestar að baki félaginu að vera breiður og sterkur hópur. Salan markar vörðu á þeirri leið og breikkar hluthafahópinn í annars vel reknu fyrirtæki í aðdraganda skráningar.
Aðrir góðir áfangar á fyrri hluta ársins eru þeir að við sjáum að áherslur okkar og samstarfsmanna í Inno vera að skila sér og að Baridi komst skrefinu nær iðnaðarframleiðslu með hlutafjáraukningu. Tapið á tímabilinu má rekja til skráðra eigna félagsins, en verðlagning þeirra hefur batnað á þriðja ársfjórðungi.“
Fjárhagsdagatal
Afkomukynning fyrri hluta ársins 2025: 15. ágúst á Parliament Hótelinu við Þorvaldsstræti 2-6, 101 Reykjavík kl. 8:30. Gengið er inn um innganginn að gamla Nasa.
Uppgjör seinni hluta árs 2025 og ársuppgjör 2025: 5. febrúar 2026
Aðalfundur 2026: 5. mars 2026