SKEL og Iceland Foods í Bretlandi stofna fyrirtæki um dreifingu á matvælum verslunarkeðjunnar á Norðurlöndum
Iceland Foods í Bretlandi og SKEL hafa tekið höndum saman um að dreifa vörum verslunarkeðjunnar á Norðurlöndum. Í þeim tilgangi hafa félögin í sameiningu stofnað félagið Ice JV ehf. sem mun annast dreifingu á frosnum vörum Iceland Foods til verslana og viðskiptavina í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi.
Sir Malcom Walker CBE, stofnandi Iceland Foods og Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður SKEL, hafa unnið saman í tuttugu ár eða frá því félag Jóns Ásgeirs, Baugur, keypti verslunarrisann UK Big Food Company árið 2005 en þá var Iceland dótturfélag þess félags. Þeir félagar sameina nú á nýjan leik krafta sína og leggja nýju félagi til áratuga farsæla reynslu af rekstri félaga á smásölumarkaði í Bretlandi og á Norðurlöndum.
Tarsem Dhaliwal, forstjóri Iceland Foods Group:
“Það er eðlilegt skref í vaxtasögu Iceland Foods að bjóða vörur félagsins til viðskiptavina á Norðurlöndum. Þetta er landsvæði þar sem íbúar vita sitthvað um gæði frosinna matvæla og með samstarfinu um Ice JV ehf. getum við byggt góðan grunn að heildsölu sem færir okkur nýjan hóp af kröfuhörðum viðskiptavinum og gefur okkur færi á sýna fram á gæði frosinna matvæla.”
Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri SKEL hf:
"SKEL hefur að markmiði að fjárfesta í félögum og eiga í samstarfi þar sem sérþekking félagsins og reynsla nýtist bæði verkefnum okkar og ekki síður samstarfsaðilum. Um þriðjungur af eignasafni SKEL eru félög sem starfa á neytendamarkaði en við í SKEL fylgjumst náið með nýjungum og þróun á þeim markaði. Við erum sérstaklega ánægð með samstarfið við Iceland Foods International í gegnum félagið Ice JV ehf. Stofnun félagsins er áfangi á leið til aukinna umsvifa á smásölumarkaði fyrir matvæli um leið og hún eykur vægi erlendra fjárfestinga í eignasafni félagsins. Samstarfsverkefnið sýnir að við erum reiðubúin til að nýta tækifærin sem gefast til að koma öruggum og góðum vörum á nýja markaði og sameina krafta okkar í SKEL hinu þekkta vörumerki Iceland Foods.”
UM Ice JV
Ice JV ehf. er í 60% eigu SKEL í gegnum dótturfélagið Stork og 40% í eigu Iceland Foods. Félagið hefur einkarétt á innflutningi og dreifingu á vörum Iceland Foods í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Félagið mun leggja grunn að öflugri heildsölu og í framhaldinu skoða möguleika á opnun smásöluverslunar þegar vörur Iceland Foods hafa náð fótfestu á markaði í áðurnefndum löndum. Með reynslu og þekkingu auk fjármuna frá SKEL og Iceland Foods, verður Ice JV í stöðu til að vaxa umtalsvert á smásölumarkaði fyrir grænmeti og frosin matvæli á Norðurlöndum.