6. febrúar 2025

Ársuppgjör 2024

Hagnaður ársins 6.754 og arðsemi eiginfjár 18,3%

Hagnaður eftir skatta nam 6.754 m.kr., arðsemi eiginfjár upp á 18,3%

Eignir félagsins námu 60.570 m.kr.

Eigið fé nam 43.728 m.kr. sem samsvarar 23,3 á hvern útgefinn hlut

Gangvirðisbreytingar af skráðum eignum var jákvæð um 2.145 m.kr.

Gangvirðisbreytingar af óskráðum eignum var jákvæð um 5.375 m.kr.

Helstu fréttir af eignasafni SKEL 2024:

Skráð verðbréf

Ávöxtun skráðra fjárfestinga SKEL var 24,8% á árinu að teknu tilliti til arðgreiðslna, sem samsvarar jákvæðri afkomu upp á 2.326 m.kr. Heildareign í skráðum verðbréfum nam 9.396 m.kr. í upphafi árs og 9.583 m.kr. þann 31. desember sl. Verðmætustu skráðu eignir SKEL í lok tímabils voru 15,3% eignarhlutur í Kaldalóni sem hefur markaðsvirðið 4.619 m.kr. og 8,2% hlutur í Skaga sem var að markaðsvirði 3.390 m.kr. Önnur skráð hlutabréf í eignasafni SKEL voru að markaðsvirði 1.574 m.kr. í lok tímabils. Skráðar eignir voru því 16% eigna SKEL, en til lengri tíma er stefnt að því að 50% eigna félagsins séu á skráðum markaði.

Fyrirtækjamarkaður

Styrkás

Rekstur Styrkáss var góður á árinu sem var að líða. EBITDA samstæðu Styrkáss 2024 var 2.649 m.kr. sem er 2% umfram áætlanir stjórnenda. Sala á eldsneyti jókst um 5% í magni á milli ára. Metár var í sölu á Scania vörubifreiðum og góður gangur í sölu á CAT vélum. Bæði undirbyggir þjónustutekjur til framtíðar fyrir félagið. Stólpi kynnti nýjar lausnir á húsnæðismarkaði fyrir sveitarfélögum og framkvæmdaraðilum.

Styrkás undirritaði nýlega kaupsamning um Hringrás ehf. Með kaupum á Hringrás er mikilvægt skref stigið til að útvíkka þjónustu Styrkáss og byggja upp fjórða kjarnann í rekstri félagsins á sviði umhverfisþjónustu. Hringrás er leiðandi í endurvinnslu og umhverfisþjónustu og fjárfestingar undanfarinna ára skapa tækifæri til að þjónusta viðskiptavini með hagkvæmum hætti í takt við ströngustu kröfur. Samvinna með öðrum einingum innan Styrkáss samstæðunnar skapa enn frekari tækifæri til að samnýta aðstöðu og auka skilvirkni. Fjárhagslegur styrkur Styrkáss veitir jafnframt möguleika til að byggja upp frekari þjónustu á athafnasvæði félagsins í Hafnarfirði. Mikill styrkur er að því að fá núverandi eigendur Hringrásar í stækkandi hóp hluthafa Styrkáss sem hafa með framsýni leitt uppbyggingu Hringrásar og skapað því forystuhlutverk til framtíðar á sviði endurvinnslu. Stefnt er að skráningu Styrkáss hf. í kauphöll Íslands ekki síðar en árið 2027.

Virði 63,4% eignarhlutar SKEL í Styrkási er skráður í bækur SKEL á 12.969 m.kr. sem byggir á síðasta viðskiptaverði með hlutafé félagsins.

Neytendamarkaður

Orkan/Löður

Heilt yfir gengur rekstur Orkunnar og tengdra félaga vel og var EBITDA 5% umfram áætlun ársins 2024. Afgreiðslur á þjónustustöðvum hafa aukast um 4,9% á milli ára og seldir lítrar um 2,6%. Orkuspá Orkustofnunar gerði ráð fyrir að hlutfall nýskráðra hreinorkubíla árið 2023 yrðu 37% en þeir voru tæplega 19%. Sala á hraðhleðslu tæplega sjöfaldaðist á árinu. Orkan verður áfram þátttakandi í orkuskiptum og eru hraðhleðslustöðvar nú orðnar 13. Gert er ráð fyrir 20 hraðhleðslustöðvum í árslok. Löður hóf að bjóða upp á þvott í áskrift á árinu. Áskriftarmódelið gengur framar vonum og eru áskrifendur nú rúmlega 5.000 talsins. Nýjar þvottastöðvar opnuðu í vetur við Fellsmúla og á Akureyri og eru þvottastöðvar nú 12 talsins. Ný þvottastöð opnar á Lambhagavegi á næstu mánuðum.

Að mati stjórnenda er útlit fyrir áframhaldandi góðan rekstur og fyrir vikið hækkar verðmat á Orkunni og Löðri um 1,5 ma.kr. á árinu. Samanlagt virði samstæðunnar er 10,7 ma.kr. í árslok.

Á fyrsta ársfjórðungi er ráðgert að hefja útvíkkun á starfsemi samstæðu Orkunnar. Verkefnið gengur út á að nýta innviði og framúrskarandi stjórnendateymi Orkunnar til að auka umsvif félagsins og dreifa tekjustoðum með samrunum á neytendamarkaði. Nánar er greint frá þessu verkefni í fjárfestakynningu SKEL.

Samkaup/Heimkaup

Árið 2024 fóru fram samrunaviðræður milli SKEL og Samkaupa eins og greint var frá í Kauphöll. Fyrirhugað var að sameina fyrirtæki á neytendamarkaði í meirihlutaeigu SKEL við Samkaup. Þessum viðræðum var slitið í október 2024. Í samrunaviðræðunum var framkvæmt mat á samlegð sameinaðs félags og var hún m.a. talin um 1,5% í innkaupum. Á þeim grundvelli komust Samkaup og hluthafar Heimkaupa að þeirri niðurstöðu að sameina félögin í desember 2024. Lyfjaval er ekki hluti af samrunanum. Tekjur Heimkaupa voru um 7,7 ma.kr. árið 2024 og Samkaupa u.þ.b. 42 ma.kr. Ljóst er að tap var af rekstri beggja eininga árið 2024.

Í desember 2024 leitaði stjórn Samkaupa til hluthafa um að auka hlutafé um 1 ma.kr. til að styrkja eiginfjárstöðu félagsins. Hlutafjáraukningin fór fram á genginu 24 kr. á hlut og skráði eignarhaldsfélag í eigu SKEL sig fyrir 17,4% af útboðinu. Eftir aukninguna á SKEL óbeint 6,2% hlut í Samkaupum sem er bókfærður á 641 m.kr. m.v. útboðsgengi. Í ársreikningi 2024 er verðmat SKEL á hlut sínum í Heimkaupum leitt út frá þeim fjölda hluta sem áætlað er að SKEL fái greitt í nýju hlutafé í Samkaupum fyrir hlutafé sitt í Heimkaupum. Verðmæti hlutafjár Heimkaupa er þ.a.l. 934 m.kr. í ársreikningi.

Verði af samruna Samkaupa og Heimkaupa er áætlað að SKEL eigi óbeint samtals um 13,7% hlut í Samkaupum, verðmetinn á 1.576 m.kr. Stjórnendur Samkaupa hafa kynnt hluthöfum hagræðingar- og vaxtaráform félagsins.

Stjórnendur Samkaupa og Heimkaupa telja tækifæri til samlegðar við samrunann sem geti nýst til að styrkja sameinað félag í samkeppni á matvörumarkaði. SKEL deilir þeirri skoðun með Samkaupum og mun styðja við þessi markmið sem hluthafi í félaginu. Gert er ráð fyrir að samruninn verði að fullu kominn fram á fyrri hluta ársins.

Lyfjaval

Lyfjaval rekur 6 apótek á höfuðborgarsvæðinu, eitt í Reykjanesbæ og það áttunda opnar á Selfossi í vikunni. Veltuaukning á árinu var 11,4% og er EBITDA félagsins 139 m.kr., sem er lægra en áætlað var. Vegna þessa hefur SKEL lækkað verðmat sitt á Lyfjavali.

Erlendar eignir

Stork ehf. er félag í 100% eigu SKEL sem er ætlað að halda utan um allar erlendar fjárfestingar á smásölumarkaði með skýrt skilgreind markmið og stjórn. Unnið hefur verið markvisst síðustu 18 mánuði að kortleggja tækifæri í Evrópu með áherslu á smásölu (e. retail). Þá hefur verið opnað á viðskiptasambönd við þekkta fjárfestingabanka og er gott framboð af áhugaverðum verkefnum. SKEL hefur ráðið Arion banka hf. til að afla hlutafjár frá fagfjárfestum í þetta verkefni, en það verður gert á grundvelli vel skilgreinds verkefnis og útgönguleiðar (e. exit).

Um mitt ár 2024, keypti Stork, í samstafi við Axcent of Scandinavia (AoS), belgísku verslunarkeðjuna INNO. Um er að ræða eina stærstu og þekktustu verslunarkeðju (e. department store) í Belgíu, en INNO hefur verið starfrækt síðan árið 1897. Félagið rekur 16 verslanir víðsvegar um Belgíu sem telja samtals 130.000 fm og starfa tæplega 1.400 manns hjá félaginu. Á síðasta reikningsári nam sala INNO 42,4 ma.kr., og fjöldi heimsókna í verslanir félagsins nam 21,4 milljónum. EBITDA afkoma félagsins var 1,4 ma.kr. Áherslur SKEL og AoS miðast við að félagið bæti upplifun viðskiptavina með endurbótum á verslunum og auki arðsemi með aukinni áherslu á eigin vörumerki. Hlutur SKEL í Stork er bókfærður á 2.208 m.kr. í ársreikningi.

Það er stefna SKEL að auka vægi erlendra fjárfestinga í 30% af eignasafni með tímanum.

Fasteignir

Á árinu keypti SKEL 50 íbúðir, samtals 5.721 fermetra, við Stefnisvog í Reykjavík á 4,9 ma.kr. og voru íbúðirnar afhentar í lok árs. Fyrir átti SKEL 55 íbúðir við Stefnisvog og eru því íbúðirnar orðnar samtals 105 talsins. Kaup á íbúðunum var liður í því að þroska efnahagsreikning félagsins, þannig að þróunareignir urðu að tekjuberandi fasteignum með þekkt markaðsverð og mögulegt er að umbreyta í lausafé á u.þ.b. 12 mánuðum.

Fyrstu íbúðirnar fóru nánast allar í leigu til íbúa Grindavíkur og var komið til móts við þeirra þarfir m.a. með stuttum uppsagnarfresti o.fl. Almenn ánægja var meðal leigjenda með þessa þjónustu.

SKEL mun hefja sölu íbúða á árinu eftir því sem leigusamningar renna út og markaðsaðstæður leyfa. Verðmat óháðra fasteignasala á íbúðunum í árslok 2024 er samtals 10,3 ma.kr. Aðrar fasteignir og lóðir í eigu SKEL sem leigðar eru undir atvinnustarfsemi eru 635 m.kr. virði.

Hluthafar

Þann 16. apríl 2024 greiddi SKEL út arð sem samsvaraði 0,39 kr. á hlut eða 750 m.kr.

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði út arður til hluthafa á árinu 2025 vegna rekstrarársins 2024 að fjárhæð 6.000 m.kr. sem samsvarar 3,19 kr. á hlut. Stjórn mun leggja til við hluthafafund að arður verði greiddur út í tveimur greiðslum, að fjárhæð kr. 3.000 m.kr. í hvort skipti. Nánari upplýsingar verða í fundarboði aðalfundar.

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri SKEL:

„Afkoma SKEL á árinu 2024 var góð þrátt fyrir áskoranir á fyrri helming ársins. Afkoma og framþróun eigna SKEL var í flestum tilfellum yfir áætlunum enda byggir eignasafn SKEL á sterkum grunni og er vel dreift. Hlutverk félagsins er að þróa viðskiptatækifæri og skapa verðmæti til langs tíma. Með það að markmiði voru stigin mikilvæg skref á árinu 2024. Ákveðið var að auka hlutdeild erlendra eigna félagsins úr 3% í allt að 30% og var unnið að kortlagningu fjárfestingatækifæra í Evrópu sem leiddi í ljós mikil tækifæri á neytendamarkaði. SKEL keypti í samstarfi við reynda erlenda aðila verslunarkeðjuna INNO í Belgíu og markaði það upphaf umbreytingafjárfestinga SKEL erlendis. Hér heima var áfram unnið að tækifærum á neytendamarkaði sem leiddi til þess að unnið er að samruna Heimkaupa og Samkaupa sem áætlað er klárist fyrri hluta ársins, að öðru óbreyttu. Á fyrirtækjamarkaði hélt Styrkás áfram að styrkja stöðu sína með kaupum á Hringrás og steig þar mikilvægt skref í átt að markmiði sínu um að veita fyrirtækjum umhverfisþjónustu. Styrkás stefnir að skráningu á markað á árinu 2027 og mun þá bætast í traust eignasafn skráðra eigna SKEL ásamt Kaldalóni og Skaga. Skráðar eignir SKEL gengu vel á árinu og var ávöxtun þeirra 28% að teknu tilliti til arðgreiðslna. Á árinu var Kaldalón tekið inn í úrvalsvísitöluna og Skaga ýtt úr vör sem öflugu fjármálafyrirtæki á sviði trygginga, eignastýringar og fjárfestingabankastarfsemi. Skráðar eignir SKEL nema um 16% af heildareignum en stefnt er að því að allt að helmingur eignanna verði í skráðum félögum. Á árinu 2025 verður unnið að sölu fasteigna félagsins við Stefnisvog og frekari áhættudreifingu í eignasafninu. Mikilvægt er að fylgja eftir fyrirhugaðri uppbyggingu í innviðum hér á landi með alhliða þjónustu við innlend fyrirtæki en jafnframt verður áhersla á að finna öfluga samstarfsaðila til þátttöku í erlendum fjárfestingaverkefnum.“

Fjárhagsdagatal SKEL fjárfestingafélags hf. fyrir árið 2024:

Afkomukynning ársuppgjörs 2024: 7. febrúar í salnum Studios á Reykjavík Edition kl. 08:30

Aðalfundur 2025: 6. mars 2025

Uppgjör fyrri hluta árs 2025: 14. ágúst 2025

Uppgjör seinni hluta árs 2025 og ársuppgjör 2025: 5. febrúar 2026

Aðalfundur 2026: 5. mars 2026

Nánari upplýsingar veitir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, fjarfestar@skel.is.

Fréttir