26. apríl 2024

Tilkynning eftir fyrsta ársfjórðung 2024

Afkoma rekstrarfélaga og skráðra hlutabréfa á 1F 2024

Afkoma rekstrarfélaga í meirihluta eigu SKEL var umfram áætlanir á fyrsta ársfjórðungi. SKEL flokkar rekstrarfélögin í eignasafninu annars vegar sem félög á neytendamarkaði og hins vegar sem innviði og félög á fyrirtækjamarkaði.

Neytendamarkaður

Orkan, þ.e. Orkan og Löður – Eignarhlutur 100%

Heimkaup, þ.e. Lyfjaval ehf., 10-11, Extra o.fl. – Eignarhlutur 81%

  • Framlegð var 2.031 m.kr. (áætlun 1.986 m.kr.)
  • EBITDA var 665 m.kr. (áætlun 628 m.kr.)
  • EBIT var 271 m.kr. (áætlun 225 m.kr.)

Fyrirtækjamarkaður og innviðir

Styrkás, þ.e. Skeljungur og Klettur – Eignarhlutur 69,64%

Gallon – Eignarhlutur 100%

  • Framlegð var 1.704 m.kr. (áætlun 1.728 m.kr.)
  • EBITDA var 340 m.kr. (áætlun 315 m.kr.)
  • EBIT var 232 m.kr. (áætlun 201 m.kr.)

SKEL hefur birt áætlanir og upplýsingar án áhrifa IFRS16 á EBITDA. Áhrifin af því eru að leigusamningar eru gjaldfærðir meðal rekstrarkostnaðar í rekstrarreikningi sem lækkar EBITDA, í stað þess að nýtingarrétturinn sé gjaldfærður með afskriftum og vextir gjaldfærðir meðal fjármagnsliða eins og IFRS16 staðallinn gerir ráð fyrir. Í tilviki fyrirtækja á neytendamarkaði þá er EBITDA leiðrétt fyrir IFRS16 á fyrsta ársfjórðungi 454 m.kr. en áætlun fjórðungsins var 402 m.kr. og afkoman því 13% yfir áætlun. Í tilviki fyrirtækjamarkaðar og innviða var EBITDA leiðrétt fyrir IFRS16 311 m.kr. á móti áætlun upp á 284 m.kr. og afkoman því 10% yfir áætlun.

Skráð hlutabréf

Hagnaður af skráðum hlutabréfum í eigu félagsins nam 141 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi að teknu tilliti til arðgreiðslna. Helstu skráðar hlutabréfastöður í lok fjórðungsins eru 2.731 m.kr. í Skaga og 2.857 m.kr. í Kaldalóni. Aðrar skráðar hlutabréfaeignir námu 4.137 m.kr. í lok fjórðungs. Lánsfjármögnun stóð í 8.645 m.kr. í lok fjórðungs og reiðufé og ríkisskuldabréf voru 4.720 m.kr.

Helstu fréttir af eignasafni SKEL 1F 2024

Neytendamarkaður

Rekstur Orkunnar gengur vel. Stjórnendur Orkunnar hafa einsett sér að vera fremst í sjálfsafgreiðslu á Íslandi og virkur þátttakandi í orkuskiptum. Sala á raforku er í samræmi við áætlanir félagsins. Löður í samstarfi við Parka hóf í byrjun árs að bjóða viðskiptavinum sínum að kaupa áskrift að ótakmörkuðum bílaþvotti og með sjálfvirkum aðgangi. Viðtökur viðskiptavina hafa verið langt fram úr væntingum. Leigusamningur við N1 um 8 þvottastöðvar rann út í mars og var þeim stöðvum lokað. Birtar áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir lokun umræddra stöðva. Löður opnaði bílaþvottastöð í Vestmannaeyjum í byrjun árs og stefnir að því að opna stöðvar á Einhellu í Hafnarfirði, nýja og endurbætta stöð við Grjótháls og á Lambahagavegi í Reykjavík á næstu misserum. Með nýjum og bættum stöðvum og nýrri þjónustu í formi áskrifta teljum við að Löður sé vel í stakk búið til að mæta aukinni samkeppni á markaði.

Rekstur Lyfjavals gengur vel. Sala hefur aukist um 10% frá sama tímabili í fyrra og framlegðarhlutfall hækkað. Lyfjaval opnaði nýtt bílaapótek við Miklubraut í febrúar og mun opna apótek á Selfossi á haustmánuðum. Heimkaup hefur unnið að því að setja á fót nýja lágvöruverðsverslun, Prís. Stefnt er að opnun í júní.

Könnunarviðræður um fýsileika samruna Samkaupa, Heimkaupa, Lyfjavals, Orkunnar og Löðurs standa yfir og gert er ráð fyrir því að niðurstöður liggi fyrir eigi síðar en 15. maí 2024. SKEL telur mikil tækifæri felast í sameiningu. Sameinað félagið yrði með djúpar rætur um land allt, dreifðar tekjur og um 150 útsölustaði. Sameinað félag væri með um 70-80 milljarða króna í veltu á ári og hefði alla burði til að nýta til fulls þau tækifæri sem eru á smásölumarkaði í dag til hagsbóta fyrir neytendur, starfsfólk og hluthafa. Ef að samruna verður þá væri stefnt að skráningu félagsins á aðalmarkað og þannig myndi hlutfall skráðra eigna SKEL aukast verulega til lengri tíma.

Fyrirtækjamarkaður og innviðir

Rekstur Styrkáss gengur vel og var umfram áætlun á fjórðungnum. Innan samstæðu félagsins í dag eru Skeljungur og Klettur. Klettur hóf starfsemi í nýrri þjónustumiðstöð við Einhellu í Hafnarfirði í mars sem fer vel af stað.

Liður í uppbyggingu Styrkás er að samræma og einfalda stoðþjónustu og auka þannig skilvirkni samstæðunnar. Með það að markmiði færðu þrír stjórnendur sig úr dótturfélögum til Styrkáss og vinna nú þvert á samstæðuna.

Styrkás undirritaði kaupsamning um Stólpa Gáma ehf. og tengd félög í lok janúar. Kaupsamningurinn var háður ýmsum skilyrðum sem hafa nú öll verið uppfyllt og félögin voru afhent þann 19. apríl sl. Markmið kaupanna er að útvíkka þjónustu Styrkáss og byggja upp þriðja kjarnann í rekstri félagsins á sviði eignaumsýslu og leigustarfsemi. Stofnandi félagsins, Ásgeir Þorláksson, kemur í hóp hluthafa Styrkáss og eflir hann enn frekar. Börkur Grímsson er framkvæmdastjóri Stólpa.

Rekstur Gallon ehf. er á áætlun. Við lok þriðja ársfjórðungs var tilkynnt að Marinó Örn Tryggvason hefði tekið við sem stjórnarformaður félagsins og að honum hefði verið falið það hlutverk að kanna möguleg tækifæri til sölu, eða þróunar félags með dreifðari tekjustoðir. Eins og þekkt er, þá eru hreyfingar á markaði með orkuinnviði hérlendis og hafa nokkrir aðilar sett sig í samband við Gallon ehf. og lýst yfir áhuga á kaupum á félaginu eða samstarfi. Nánar verður upplýst um framgang þessara samtala eftir því sem tilefni er til.

Fasteignir

Þann 8. mars sl. var kaupréttur nýttur að 35 íbúðum við Stefnisvog, 104 Reykjavík í eigu Stefnisvogs ehf. Aðilar náðu einnig samkomulagi um kaup SKEL á fleiri íbúðum og urðu kaupin því samanlagt 50 íbúðir við Stefnisvog, samtals 5.534 fm að stærð. Kaupverð er 4.704 m.kr. Hluti kaupverðs verður greiddur með afhendingu hlutafjár og hluthafalána í Reir þróun ehf. að fjárhæð 726 m.kr. Að loknu uppgjöri viðskiptanna verður SKEL búið að afhenda alla eignarhluti og hluthafalán til Reir Þróunar í skiptum fyrir fullbúnar íbúðir. Áætlað er að íbúðirnar verði afhentar á fjórða ársfjórðungi 2024. SKEL mun bjóða umræddar íbúðir til langtímaleigu í gegnum leigumiðlara.

Með viðskiptunum eignast SKEL fyrnanlega eign upp á um 3.800 m.kr. og getur þannig frestað tekjuskatti sem hefur verið færður í bókum félagsins og hefði að öðrum kosti komið til greiðslu á árinu 2025.

Eigin bréf og greiðslur til hluthafa

Á aðalfundi SKEL þann 7. mars 2024 var samþykkt tillaga stjórnar um að lækka hlutafé félagsins. Lækkunin nam kr. 57.554.742 að nafnverði og tók til eigin hluta sem félagið eignaðist með kaupum á eigin hlutum samkvæmt endurkaupaáætlunum. Lækkunin var framkvæmd 27. mars og er hlutafé félagsins nú kr. 1.878.479.032. Einnig var samþykkt á aðalfundi að greiða arð upp á 750 m.kr. sem samsvarar 0,39 kr. á hlut. Arður var greiddur 16. apríl. Fjöldi hluthafa voru 1.029 í byrjun árs og voru 1.028 í lok fyrsta ársfjórðungs.

Fjárhagsdagatal SKEL fjárfestingafélags hf. fyrir árið 2024:

Uppgjör fyrri hluta árs 2024: 15. ágúst 2024

Uppgjör seinni hluta árs 2024 og ársuppgjör 2024: 6. febrúar 2025

Aðalfundur 2025: 6. mars 2025

Nánari upplýsingar veitir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, fjarfestar@skel.is // 444-3040

Fyrirvari:

Í framangreindri fréttatilkynningu er vísað til áætlana um framtíðarhorfur sem er háðar óvissuþáttum og getur þýtt að raunverulegur árangur verði frábrugðinn því sem áætlað er í þessari fréttatilkynningu. SKEL hefur ekki skyldu til að, og mun ekki, uppfæra þessar spár um framtíðarhorfur félagsins til að endurspegla atburði og aðstæður sem eiga sér stað eftir útgáfu þessarar fréttatilkynningar. Það er ábyrgð fjárfestis að reiða sig ekki seinna meir á spár um framtíðarhorfur sem eru settar fram í þessari fréttatilkynningu þar sem þær eiga eingöngu við á þeim tíma sem hún er gefin út.

Fréttir