15. febrúar 2023

Nýr kaupsamningur undirritaður vegna sölu á öllu hlutafé SKEL í Sp/f Orkufelagið

Þann 25. október 2022 var tilkynnt um að SKEL fjárfestingafélag hf. (”SKEL”) hefði samþykkt kauptilboð frá færeyska félaginu SP/F fra 27. júní 2007 (“CIG”) í allt hlutafé SKEL í SP/F Orkufelagið ("Orkufelagið"), sem er 48,3% af heildarhlutafé þess. Orkufelagið er móðurfélag P/F Magn sem er orku-, verslunar og olíudreifingarfyrirtæki í Færeyjum. Samhliða samþykkt SKEL á tilboði CIG í hluti sína samþykkti Hólmi ehf. (”Hólmi”) sölu á sínum eignarhlut, sem hefði gert CIG að meirihlutaeiganda í SP/F Orkufelagið.

Þann 20. desember var undirritaður kaupsamningur milli SKEL og Hólma sem seljenda og CIG, sem kaupanda sem var háður sömu fyrirvörum og kauptilboðið. Áreiðanleikakönnun er lokið og hafa fjárhagslegir skilmálar sölunnar verið uppfylltir að mati seljenda og kaupanda.

Einn hluthafi, eigandi að 0,4% hlutafjár í Orkufelaginu, hefur gert athugasemdir við söluferlið. SKEL telur athugasemdir hluthafans ekki eiga við rök að styðjast.

Í ljósi þess að P/F Magn er mikilvægur innviður í Færeyjum, töldu aðilar mikilvægt að sátt væri um rekstur félagsins og viðskipti aðila. Samningsbundnir frestir samkvæmt kaupsamningi runnu út þann 14. febrúar 2023 og er hann því fallinn niður.

Í kjölfarið gerðu SKEL og CIG með sér nýjan kaupsamning í dag, sem er að mestu fyrirvaralaus, um að CIG kaupi allt hlutafé SKEL í Orkufelaginu. Hólmi hefur fallið frá fyrirhugaðri sölu. Samkvæmt kaupsamningi hefur SKEL samþykkt að selja og CIG hefur samþykkt að kaupa allt hlutafé SKEL í í Orkufélaginu, sem er 48,3% af heildrhlutafé þess. SKEL veitir öðrum hluthöfum í Orkufelaginu forkaupsrétt á hinu selda hlutafé í jöfnum hlutföllum, án skyldu, að beiðni CIG. Verði forkaupsréttur hluthafa nýttur að hluta, mun CIG engu að síður kaupa þá hluti sem eftir standa samkvæmt kaupsamningum.

Kaupverð hlutafjár er það sama og samkvæmt fyrri samningi, DKK 146.054.899. Greitt verður fyrir hlutina með reiðufé á afhendingardegi, sem áætlað er að verði í lok mars 2023.

Samhliða kaupsamningi hefur SKEL skrifað undir skilyrtan sölurétt til Hólma, sem á 7,9% hlut í Orkufelaginu. Sölurétturinn gildir í 30 daga eftir samþykkt ársreiknings Orkufélagsins fyrir árið 2023. Markmiðið með samningnum er að gera Hólma eins settan og félagið hefði selt samhliða SKEL og myndar viðskiptaverð SKEL og CIG lágmarksverð söluréttarins, að viðbættum 5% ársvöxtum.

Fréttir