Tilkynning eftir fyrsta ársfjórðung 2023
Afkoma rekstrarfélaga og skráðra hlutabréfa á 1F 2023
AFKOMA REKSTRARFÉLAGA OG SKRÁÐRA HLUTABRÉFA Á 1F 2023
Rekstrarfélög SKEL eru þau félög sem SKEL fer með yfirráð yfir, þ.e. samstæða Skeljungs ehf., og Kletts – sölu og þjónustu ehf., samstæða Orkunnar, þ.e. Orkan IS ehf., Lyfjaval ehf., og Löður ehf. sem og Gallon ehf.
Rekstur ofangreindra félaga var umfram áætlanir á fyrsta ársfjórðungi 2023 og nam samanlögð EBITDA félaganna 952 m.kr. samkvæmt óendurskoðuðum stjórnendauppgjörum þeirra.
Til samanburðar þá var áætluð EBITDA fyrir fyrsta ársfjórðung 547 m.kr. og afkoman því nokkuð umfram áætlanir. Áætlanir félaganna voru birtar ásamt ítarlegum forsendum fyrir verðmati eigna í ársreikningi SKEL og afkomukynningu fyrir síðasta ár.
Áætluð EBITDA fyrir allt árið 2023 nemur 3.970 m.kr. og hafa félögin því náð um 25% af áætlun ársins eftir fyrsta ársfjórðung sem hefur sögulega verið lakari en annar og þriðji ársfjórðungur.
Allar rekstrartölur í þessari fréttatilkynningu eru án áhrifa IFRS16. Áhrifin af því eru að leigusamningar eru gjaldfærðir meðal rekstrarkostnaðar í rekstrarreikningi sem lækkar EBITDA, í stað þess að nýtingarrétturinn sé gjaldfærður með afskriftum og vextir gjaldfærðir meðal fjármagnsliða eins og IFRS16 staðallinn gerir ráð fyrir. Áhrif af IFRS16 á EBITDA félaganna eru um 249 m.kr. til hækkunar á ársfjórðungnum.
Hagnaður af skráðum hlutabréfum félagsins nam 232 m.kr. á fyrsta fjórðungi. Helstu skráðar hlutabréfastöður í lok fjórðungsins eru 2.951 m.kr. í VÍS og 2.513 m.kr. í Kaldalóni.
HELSTU FRÉTTIR AF EIGNASAFNI SKEL 1F 2023
Þann 10. febrúar sl. var gengið formlega frá kaupum Skeljungs ehf. á Kletti – sölu og þjónustu. Samhliða gekk SKEL frá kaupum á Klettagörðum 8-10 ehf., félaginu sem á og rekur húsnæðið sem hýsir hluta af starfsemi Kletts. Áætluð EBITDA Kletts á árinu 2023 er 499 m.kr. Rekstur Kletts gengur vel og ber öll merki fyrirtækis sem hefur verið vel rekið um langt skeið.
Undirritaður var nýr kaupsamningur um Orkufélagið, sem er móðurfélag Magn SP/f í Færeyjum þann 15. febrúar sl. Forkaupsréttartímabili er lokið, nokkrir hluthafar nýttu forkaupsrétt sinn og hafa þeir greitt sitt kaupverð inn á geymslureikning (e. escrow). Málið er nú í meðferð hjá samkeppnisyfirvöldum í Færeyjum og SKEL væntir niðurstöðu og greiðslu kaupverðs á fyrri árshelmingi.
Þann 6. mars voru keyptir 200 milljónir hluta í Kaldalóni en félagið átti fyrir 1.410 milljón hluti, með þessum kaupum á SKEL samtals 14,47% hlut í Kaldalóni og er stærsti hluthafi félagsins.
Þann 22. mars var fjárfest í sænska fjártæknifyrirtækinu Focalpay fyrir um 15 milljónir sænskra króna eða tæplega 10% hlut í félaginu. Focalpay er var stofnað fyrir tveimur árum og hefur þróað fyrsta kerfið sem sameinar söluferli og greiðslumiðlun í eitt kerfi. Focalpay hefur nú þegar viðskiptavini í Skandinavíu og ætlar sér að sækja á Evrópumarkað í haust.
Þann 29. mars keypti Orkan 42% hlut minnihlutaeigenda í Lyfjavali. Fyrir átti Orkan 58% hlut og með kaupunum eignast Orkan því Lyfjaval að fullu. Lyfjaval rekur sjö apótek, þ.a. fjögur bílaapótek.
ÁSGEIR HELGI REYKFJÖRÐ GYLFASON, FORSTJÓRI SKEL:
„Árið 2023 fer vel af stað og afkoma á fyrsta fjórðungi hjá rekstrarfélögunum er ánægjuleg. Taka verður tillit til þess að verkföll og annað fólu í sér áskoranir, sem leyst var úr með myndarbrag.
Farið var í vinnu við stefnumörkun rekstrarfélaga sl. ár þar sem áherslan var að þar færu sjálfstæð fyrirtæki, söludrifin og með skýra stefnu og aðgreiningu á markaði. Það er ánægjulegt að sú vinna sé að skila sér í að afkoma félaganna er umfram áætlanir fyrstu þrjá mánuði ársins.
Það var mikilvægt skref að klára kaupin á Kletti á fjórðungnum en það eru stefnumarkandi viðskipti sem eru liður í að byggja upp öflugt alhliða þjónustufyrirtæki við íslenskt atvinnulíf. Við tökum við sterku félagi sem við teljum að geti vaxið enn meira samhliða Skeljungi. Við höfum nýtt tímann vel og átt viðræður við aðila um að koma með okkur í að byggja upp slíkt fyrirtæki.
Framundan eru þeir mánuðir sem hafa sögulega verið hvað umfangsmestir í sölu hjá rekstrarfélögunum. Útlitið fyrir sumarið er gott.
Við undirbjuggum nýtt afl á smásölumarkaði á fyrsta fjórðungi og tilkynntum í dag um ráðningu Grétu Maríu Grétarsdóttur í starf forstjóra Heimkaupa. Við viljum auka samkeppni á þeim markaði og skapa virði fyrir hluthafa.
Við erum ánægð með afkomuna og þróunina á eignasafninu. Félögin munu áfram starfa eftir þeirri stefnu sem þeim var mörkuð og sækja fram.“
FYRIRVARI:
Það skal að áréttað að markmiðið með þessari tilkynningu er einkum að gefa fjárfestum og öðrum innsýn inn í rekstur óskráðra félaga í eigu SKEL ásamt því að fara yfir önnur fréttnæm atriði. Þetta er ekki ársfjórðungsuppgjör, SKEL birtir uppgjör tvisvar á ári. Sambærileg tilkynning og þessi verður birt vegna þriðja ársfjórðungs. Upplýsingar um afkomu rekstrarfélaga byggja á stjórnendaupplýsingum sem hafa ekki verið endurskoðaðar eða kannaðar. Allar rekstrartölur í þessari fréttatilkynningu eru án IFRS16.
Uppgjör fyrir 1H 2023 verður birt 16. ágúst.
Nánari upplýsingar, fjarfestar@skel.is