31. janúar 2024

Styrkás undirritar kaupsamning vegna kaupa á Stólpa Gámum ehf. og tengdum félögum

Vísað er til tilkynningar frá 15. nóvember 2023, um undirritun samkomulags um helstu skilmála samnings vegna kaupa Styrkás hf., félags í 69,64% eigu SKEL fjárfestingafélags, á 100% hlutafjár í sex dótturfélögum Máttarstólpa ehf. Samkomulagið var háð fyrirvara um endanlegan kaupsamning vegna viðskiptanna, fjármögnun, niðurstöðu áreiðanleikakannana og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Í dag var undirritaður kaupsamningur milli Styrkáss og Máttarstólpa um kaup fyrrnefnda félagsins á öllu hlutafé í eftirfarandi félögum:

- Stólpi Gámar ehf., kt. 460121 1590, Klettagörðum 5, 104 Reykjavík;
- Stólpi Smiðja ehf., kt. 4601211750, Klettagörðum 5, 104 Reykjavík;
- Klettaskjól ehf., kt. 4601210510, Klettagörðum 5, 104 Reykjavík;
- Stólpi ehf., 460121-0430, Klettagörðum 5, 104 Reykjavík;
- Tjónaþjónustan ehf., kt. 460121-1670, Klettagörðum 5, 104 Reykjavík;
- Alkul ehf., kt. 491020-0830, Haukdælabraut 48, 113 Reykjavík.

í sameiningu vísað til þessara félaga sem „hið selda“. Þau verða sem fyrr rekin á samstæðugrunni.

Heildarvirði hins selda samkvæmt kaupsamningi er 3.549 m.kr. Að frádregnum nettó vaxtaberandi skuldum og stöðu nettó veltufjármuna er endanlegt kaupverð 2.955 m.kr. Við afhendingu hins selda verður 55% af kaupverði eigin fjár hins selda greitt með reiðufé og 45% greitt með nýjum hlutum í Styrkási. Máttarstólpi, sem er í eigu Ásgeirs Þorlákssonar, eignast 8,7% hlut í Styrkási eftir kaupin. Virði hlutafjár Styrkáss í viðskiptunum er kr. 1,1945 á hlut sem er 17,7% yfir bókfærðu virði bréfanna í hálfsársuppgjöri SKEL 2023.

Samanlagður hagnaður fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði (EBITDA án áhrifa IFRS 16) hinna keyptu félaga var 663 m.kr. árið 2023 samkvæmt drögum að ársuppgjöri. Áætlaður hagnaður Styrkáss samstæðunnar fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði (EBITDA) árið 2024 er um 2,7 ma.kr. eftir kaupin.

Hluti af kaupunum er fasteign að Sægörðum 15, 104 Reykjavík og lóðir að Gullhellu 2 og Tinhellu 2, 4, 6, 8, 10 og 12 í Hafnarfirði sem eru rúmlega 60 þúsund fermetrar að stærð. Nýtingarhlutfall lóðanna samkvæmt samþykktu deiliskipulagi er 0,4. Heildarvirði fasteigna og lóða í viðskiptunum er 1.870 m.kr.

Niðurstöður lögfræðilegrar, skattalegrar og fjárhagslegrar áreiðanleikakannana liggja fyrir en kaupsamningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlits.

Ásmundur Tryggvason, forstjóri Styrkáss:

Með kaupum á Stólpa Gámum og tengdum félögum er mikilvægt skref stigið til að útvíkka þjónustu Styrkáss og byggja upp þriðja kjarnann í rekstri félagsins á sviði eignaumsýslu og leigustarfsemi. Stólpi Gámar er leiðandi í gáma- og húseiningalausnum fyrir atvinnulífið og einstaklinga, gámaviðgerðum og tjónaþjónustu fyrir tryggingafélög. Framundan er mikil þörf fyrir snjallar og hagkvæmar húsnæðislausnir þar sem Stólpi Gámar hefur getið sér orð fyrir bæði gæði og framúrskarandi þjónustu. Mikill styrkur er að því að fá Ásgeir Þorláksson í hóp hluthafa Styrkáss til að vinna að þeirri vegferð sem framundan er við að efla Styrkás enn frekar og búa í haginn fyrir skráningu í kauphöll fyrir árslok 2027.”

Um Styrkás

Styrkás er í 69,64% eigu SKEL fjárfestingarfélags hf. og 29,54% eigu Horns IV slhf., framtakssjóðs í stýringu Landsbréfa. Styrkás hefur markað sér stefnu um að byggja ofan á sterkar stoðir samstæðunnar með innri og ytri vexti á fimm kjarnasviðum, orku og efnavöru, tækjum og búnaði, umhverfi, iðnaði og eignaumsýslu. Innan samstæðu félagsins í dag eru Skeljungur og Klettur sem eru leiðandi félög á sínum sviðum. Markmið hluthafa er að skrá alla hluti í félaginu á skipulegan markað í Kauphöll Íslands fyrir árslok 2027.

Ráðgjafar Styrkáss í ferlinu eru fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka og BBA // Fjeldco og ráðgjafi Máttarstólpa eru &Pálsson og Landslög.

Nánari upplýsingar veitir Ásmundur Tryggvason, forstjóri Styrkáss, asmundur@styrkas.is

Fréttir