26. október 2023

Tilkynning eftir þriðja ársfjórðung 2023

AFKOMA REKSTRARFÉLAGA OG SKRÁÐRA HLUTABRÉFA Á 3F 2023

Afkoma rekstrarfélaga í meirihluta eigu SKEL var góð á þriðja ársfjórðungi. Samanlögð EBITDA félaganna á 3F var 1.597 m.kr. eða 12% yfir áætlun. SKEL flokkar rekstrarfélögin í eignasafninu annars vegar sem félög á neytendamarkaði og hins vegar sem innviði og félög á fyrirtækjamarkaði.

Neytendamarkaður

Orkan, þ.e. Orkan og Löður – Eignarhlutur 100%
Heimkaup, þ.e. Lyfjaval ehf., 10-11, Extra, Gló o.fl. – Eignarhlutur 81%

  • Framlegð á 3F var 2.152 m.kr. (Áætl. 2.198 m.kr.)
  • EBITDA á 3F var 916 m.kr. (Áætl. 756 m.kr.)
  • Framlegð fyrstu 9M var 5.912 m.kr. (áælt. 5.381 m.k.r)
  • EBITDA fyrstu 9M var 1.637 m.kr. (1.137 m.kr.)

Fyrirtækjamarkaður og innviðir

Styrkás, þ.e. Skeljungur og Klettur – Eignarhlutur 69,8%
Gallon – Eignarhlutur 100%

  • Framlegð á 3F var 1.849 m.kr. (Áætl. 1.876 m.kr.)
  • EBITDA á 3F var 681 m.kr. (Áætl. 649 m.kr.)
  • Framlegð fyrstu 9M var 5.577 m.kr. (áælt. 5.371 m.k.r)
  • EBITDA fyrstu 9M var 1.702 m.kr. (1.562 m.kr.)

*Allar rekstrartölur í tilkynningunni eru án áhrifa IFRS16. Áhrifin af því eru að leigusamningar eru gjaldfærðir meðal rekstrarkostnaðar í rekstrarreikningi sem lækkar EBITDA, í stað þess að nýtingarrétturinn sé gjaldfærður með afskriftum og vextir gjaldfærðir meðal fjármagnsliða eins og IFRS16 staðallinn gerir ráð fyrir.

Tap félagsins af skráðum hlutabréfum í eigu félagsins nam 28 m.kr. á þriðja fjórðungi. Tap fyrstu 9 mánuði ársins nam 158 m.kr. Helstu skráðar hlutabréfastöður í lok fjórðungsins eru 2.464 m.kr. í VÍS og 2.805 m.kr. í Kaldalóni. Aðrar skráðar hlutabréfaeignir námu 1.847 m.kr. í lok fjórðungs. Lánsfjármögnun stóð í 3.003 m.kr. í lok fjórðungs og reiðufé og ríkisskuldabréf voru 5.281 m.kr.

HELSTU FRÉTTIR AF EIGNASAFNI SKEL 3F 2023

Styrkás hefur starfsemi – forstjóri ráðinn

Ásmundur Tryggvason var ráðinn forstjóri Styrkáss, samstæðu þjónustufyrirtækja við íslenskt atvinnulíf. Í dag er Styrkás móðurfélag Skeljungs og Kletts. Ásmundur mun leiða samstæðuna og vinna að innri og ytri vexti Styrkáss, í samstarfi við stjórnendur félaganna, með því að víkka og efla þjónustu við atvinnulífið á sviði orku og efnavöru, tækja og búnaðar, umhverfis, iðnaðar og eignaumsýslu.

Eigendur Styrkáss eru SKEL 69,8%, Horn IV slhf. 29,54%, sem er framtaksfjárfestingasjóður í rekstri Landsbréfa, auk lykilstarfsmanna samstæðunnar.

Þá undirritaði Skeljungur kaupsamning um kaup á öllu hlutafé Búvís ehf. á Akureyri. Félagið sérhæfir sig í sölu og þjónustu búvéla og rekstaravara til bænda. Með kaupunum hyggst Skeljungur sækja fram á landbúnaðarmarkaði og byggja á góðu starfi Búvís. Viðskiptin eru til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Orkan – virk í orkuskiptum og fremst í sjálfsafgreiðslu

Rekstur Orkunnar hefur verið umfram áætlanir á árinu. Félagið hefur einsett sér að vera fremst í sjálfsafgreiðslu á Íslandi.

Orkan hefur lagt áherslu á að vera virkur þátttakandi í orkuskiptum og nýta innviði sína til að afhenda orku á farartæki, sama hverrar tegundar orkan er. Á grundvelli þessarar stefnu hefur Orkan opnað 3 hraðhleðslustöðvar á fjórðungnum og mun opna 13 í viðbót eins og áður hefur verið kynnt. Þegar þessar stöðvar eru komnar upp hefur;

  • Orkan fjölgað heildarfjölda 150 kW+ hleðslustöðva á Íslandi um 60%
  • Orkan fjölgað heildarfjölda 150 kW+ hleðslutengja á Íslandi um 143%

Fjöldi þvotta hjá Löðri hefur aukist um 20,9% milli ára. Þrátt fyrir það hefur rekstur félagsins verið undir fjárhagsáætlun það sem af er ári, sem skýrist einkum af töfum á framkvæmdum og þar af leiðandi opnun nýrra stöðva. Ákveðið var að samþætta rekstur Löðurs og Orkunnar að fullu og er það þegar komið til framkvæmda.

Heimkaup – tækifæri til ytri vaxtar

Samstæða Heimkaupa samanstendur af Lyfjavali, Heimkaup vefverslun, verslunum Extra, 10-11 og eignarhlutum í Gló, Brauð og co. og Sbarro.

Rekstur Lyfjavals er í takt við áætlanir og söluvöxtur milli ára er 28%. Veltuaukningu má helst rekja til nýrri apóteka Lyfjavals, sem er mjög ánægjulegt. Endurskipulagning smásöluverslunar er í takt við áætlanir og hefur teymi starfsfólks unnið mjög gott starf. Tækifæri til innri og ytri vaxtar eru í skoðun.

Gallon – uppbygging innviðafélags

Miklir möguleikar felast í því að stækka félagið með sameiningu við önnur félög sem eiga sambærilega innviði. Marinó Örn Tryggvason hefur tekið við sem stjórnarformaður Gallon. Marinó Örn mun sinna hefðbundnum stjórnarstörfum ásamt því að kanna möguleg tækifæri til sölu, eða þróunar félags með dreifðari tekjustoðir. Fjárfestar hafa sýnt áhuga á því að koma að slíku verkefni og getur það falið í sér að SKEL selji hlut sinn í Gallon.

Fasteignakaup í Stefnisvogi

Á fjórðungnum keypti SKEL 55 íbúðir, samtals 5.905 fm, við Stefnisvog 2, 104 Reykjavík, af Stefnisvogi 2 ehf. Kaupverð samkvæmt kaupsamningi er 4.900 m.kr. Gert er ráð fyrir því að íbúðirnar verði afhentar fyrir lok árs 2023. Samhliða undirritun kaupsamnings var gert samkomulag um kauprétt að 35 íbúðum, samtals 3.816 fm, við Stefnisvog 12, 104 Reykjavík í eigu Stefnisvogs ehf. Verð samkvæmt kauprétti er 3.243 m.kr. Nýti SKEL kaupréttinn er gert ráð fyrir því að íbúðirnar við Stefnisvog 12 verði afhentar fyrir árslok 2024.

Kaupverð íbúðanna við Stefnisvog 2 skiptist með eftirfarandi hætti: Reiðufé 400 m.kr., framsal hlutafjár og hluthafalána í Reir Þróun að andvirði 1.100 m.kr., og lántaka 3.400 m.kr.

Viðræður eru yfirstandandi um leigu á eignunum í heild til lögaðila sem mun síðan koma íbúðunum í langtímaleigu á markaði. Á grundvelli þessa fyrirkomulags er líklegt að rekstrarkostnaður SKEL hækki ekki vegna þessarar fjárfestingar. Heildarleigutekjur á ári eru áætlaðar 235 m.kr. og hreinar tekjur um 200 m.kr. Fjárfestingin frestar skattgreiðslu að fjárhæð 770 m.kr. og eru áhrif á fjárstreymi SKEL þ.a.l. jákvæð.

Klettagarðar 8-10 – félagið selt

SKEL setti Klettagarða 8-10 ehf. í söluferli á vormánuðum 2023. Þann 11. október sl. var undirritaður kaupsamningur sölu á öllum hlutum SKEL í félaginu. Heildarvirði (EV) félagsins við söluna nam 1.925 m.kr.

Eigin bréf og greiðslur til hluthafa

Þann 12. apríl greiddi SKEL út arð sem samsvaraði 0,31 kr. á hlut eða 600 m.kr. SKEL hefur á þriðja ársfjórðungi sett af stað tvær endurkaupaáætlanir. Fyrst upp á 250 m.kr. að markaðsvirði og síðar upp á 500 m.kr. Þann 20. október sl. hafði SKEL keypt eigin bréf fyrir 33,9 m.kr. að nafnvirði og greitt 442 m.kr. fyrir þau. Fjöldi hluthafa var í upphafi tímabils 1.044 og stóð í 1.052 í lok ársfjórðungsins. Gengi hlutafjár SKEL stóð í 13 kr. í lok ársfjórðungs og markaðsvirði þess var 25.168 m.kr. Fjárhæð arðs og endurkaupa á árinu nemur 4,14% af markaðsvirði félagsins.

Sp/f Orkufelagið – endanlegt uppgjör

Í ágúst var endanlegt uppgjör á kaupsamningi vegna sölu á öllu hlutafé SKEL í SP/F Orkufelagið. Kaupverð hlutafjár var DKK 146.054.899. Eftirstæðar eignir og áhætta á félagið eru söluréttur DKK 20.744.188 og lán að upphaflegri upphæð DKK 19.083.711.

ÁSGEIR HELGI REYKFJÖRÐ GYLFASON, FORSTJÓRI SKEL:

„Rekstur félagsins hefur það sem af er ári gengið vel. Þær ákvarðanir, fjárfestingar og sölur sem við höfum áður kynnt eru komnar til framkvæmda að mestu. Styrkás, nýstofnað þjónustufyrirtæki við atvinnulífið, hefur tekið á sig skýra mynd. Aðrir fjárfestar hafa komið að verkefninu og uppbygging er framundan. Eignarhlutur SKEL í Magn hefur verið seldur til leiðandi fjárfestis í Færeyjum. Orkan hefur verið einfölduð verulega og er nú það fyrirtæki sem stendur fremst í sjálfsafgreiðslu á Íslandi. Uppbygging á öflugum áskoranda á smásölumarkaði undir merkjum Heimkaupa er í farvegi. Þá höfum við jafnframt fjárfest frekar í fasteignum eins og boðað var í hálfsársuppgjöri og þannig breytt hluta af okkar þróunareignum í tekjuberandi eignir með þekkt markaðsverð. Markaðsaðstæður hafa verið krefjandi, en skráðar eignir félagsins lækkuðu á fjórðungnum. Við höfum ýtt úr vör frekari þróun á Galloni í átt að innviðafélagi og ég hlakka til að sjá hvernig það mál og önnur þróast.“

FYRIRVARI:

Það skal að lokum áréttað að markmiðið með þessari tilkynningu er einkum að gefa fjárfestum og öðrum innsýn inn í rekstur óskráðra félaga í eigu SKEL ásamt því að fara yfir önnur fréttnæm atriði. Þetta er ekki ársfjórðungsuppgjör enda hefur félagið upplýst um að ekki verði gefið út ársfjórðungsuppgjör fyrir fyrsta og þriðja ársfjórðung. Enn fremur byggja upplýsingar um afkomu rekstrarfélaga á stjórnendaupplýsingum sem hafa ekki verið endurskoðaðar eða kannaðar. Allar rekstrartölur í þessari fréttatilkynningu eru án IFRS16.

Ársuppgjör 2023 verður birt 8. febrúar 2024

Nánari upplýsingar eða ósk um fundi, fjarfestar@skel.is

Fréttir